Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, endurskoðun á hverfisskipulagi Breiðholts
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 79
26. ágúst, 2020
Annað
Fyrirspurn
Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld endurskoði, áður en lengra er haldið með nýtt hverfisskipulag í Breiðholti, þær ábendingar sem birtar hafa verið á samfélagsmiðlum sérstaklega hvað varða áhyggjur íbúa á frekari skorti á bílastæðum í hverfinu. Vinnutillögur fyrir hverfisskipulag Breiðholts gera ráð fyrir að íbúðum fjölgi um 3000 í hverfinu án þess að þeim fylgi bílastæði í sambærilegu hlutfalli. Endurskoða þarf hugmyndir sem lúta að mögulegum bílastæðum sem ættu að fylgja þeim aukaíbúðum sem eigendur sérbýlishúsa mega byggja/innrétta á lóðum sínum. Í hugmyndunum er ekki gert ráð fyrir að þessar aukaíbúðir fái bílastæði. Verði það raunin mun það rýra gildi eignarinnar enda fólk almennt síður tilbúið að leiga eða kaupa eign þar sem það eða gestir þeirra geti ekki lagt bíl sínum nálægt. Eldri borgarar og hreyfihamlaðir nota frekar bíl en hjól til að ferðast um sem dæmi. Einnig þarf að endurskoða það blokkarbyggingarmagn sem áætlað er að byggja í Breiðholti. Byggja á mikið af blokkum í hverfi sem hefur hvað flestar blokkirnar í borginni. Gengið er á græn svæði og leikvelli sem ekki er boðlegt. Byggja á litlar íbúðir en ekki er séð að skortur verði á litlum íbúðum ef horft er til yfirstandandi framkvæmda í borginni og íbúðir sem ekki hafa selst.
Svar

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Vítt og opið samráðsferli á sér stað þessa dagana við íbúa og hagsmunaaðila í Breiðholti. Þar er mikið lagt upp úr að hlusta á allar raddir samfélagsins, unga sem aldna. Ekki er um að ræða kvaðir á íbúa um t.a.m. fækkun bílastæða, heldur felur skipulagið í sér auknar heimildir íbúa til þess að breyta og bæta eignir sínar. Unnið verður úr öllum ábendingum íbúa sem koma fram áður en Hverfisskipulagið verður sett í lögformlegt auglýsingarferli. Tillagan er því felld.
  • Flokkur fólksins
    Tillaga Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld endurskoði strax þær ábendingar sem íbúar Breiðholts hafa tjáð sig um m.a. á samfélagsmiðlum hefur verið felld. Flestir virðast hafa áhyggjur af hvert stefnir í bílastæðismálum en víða er nú þegar skortur á þeim. Opnað er fyrir möguleika á að byggja 3000 íbúðir án þess að þeim fylgi bílastæði í sambærilegu hlutfalli. Íbúaeign án bílastæðis er ekki eins söluvæn og fylgdi henni bílastæði. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að með því að fella þessa tillögu séu það merki um að skipulagsyfirvöld ætli ekki að taka þessar ábendingar alvarlega. Jafnvel þótt heilu fjölskyldurnar muni fara um á hjólum þá fá flestir stundum til sín gesti. Stefnir í þrengsl í sumum hverfum sem þröngt er fyrir. Í stað þess að sýna slíka stífni þegar kemur að einkabílnum væri nær að skipulagsyfirvöld styddu fólk með ýmsum hætti til að skipta yfir í raf- eða metanbíl. Enda þótt borgarlína sé fyrirhuguð í Mjódd mun fólk nota bíl áfram. Koma þarf börnum í leik-, og grunnskóla ásamt að sinna öðrum erindum. Sumir verða að fara á bíl í vinnu og margir verða að nota bílinn til að komast á borgarlínustöð. Enn liggur ekki fyrir hvernig bílastæðamálum verður háttað í kringum borgarlínustöðina í Mjódd.