Landfylling austan við Laugarnes,
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 77
1. júlí, 2020
Annað
Fyrirspurn
Lagt fram bréf Landverndar til borgarstjórans í Reykjavík og skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, dags. 29. apríl 2020, um landfyllingu austan við Laugarnes og áhrif á náttúru, landslag og útivist. 
Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Hér er um landfyllingar við Sundahöfn austan við Laugarnes að ræða. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með Landvernd og lýsir yfir vonbrigðum með að beitt skuli undantekningarákvæðum vegna framangreindra framkvæmda. Ekki verður séð af gögnum að ítarlega hafi verið fjallað um framkvæmdina í aðalskipulagi. Alvarlegt er að framkvæmdir séu hafnar þótt ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag á svæðinu en segir í lögum að framkvæmdaleyfi skal ávallt vera í samræmi við skipulag.  Laugarnestangi er á náttúruminjaskrá og nýtur hverfisverndar í aðalskipulagi m.a. vegna þess að mikið er um búsetuminjar og ströndin er að mestu ósnortin. Skipulagsyfirvöld segja sjálf í gögnum, að “mikilvægt sé að halda í þetta merkilega menningarlandslag, samspil náttúru og minja, sem er hvergi að finna annars staðar í Reykjavík.” En ekki er  litið til framgreindar lýsingar á þeim verðmætum sem í húfi eru. Áhrif framkvæmda á verðmætt náttúru- og útivistarsvæði hafa ekki verið vel athuguð, Fulltrúi Flokks fólksins  vill fagleg vinnubrögð skipulagsyfirvalda og að “skipulagsyfirvöld taki framangreinda þætti til vandlegrar skoðunar og kynninga vel áður en teknar verða ákvarðanir um deiliskipulag og frekari framkvæmdir á og við framangreinda landfyllingu.” Skipulagsyfirvöld verða að hætta að skerða einatt fjörur þegar eitthvað þarf að gera nálægt sjó.
  • Miðflokkur
    Tekið er undir áhyggjur og sjónarmið Landverndar vegna gerðar við mikillar landfyllingar við Sundahöfn austan við Laugarnes. Það skal upplýst að borgarfulltrúi Miðflokksins á inniliggjandi ósvaraðar spurningar hjá Faxaflóahöfnum hvað eigi að koma á þessa landfyllingu. Svar hefur ekki borist.
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Við þökkum Landvernd fyrir bréfið og tökum undir þau sjónarmið að náttúrufarið á Laugarnestanga er einstakt. Þar er líffræðilegur fjölbreytileiki gróðurs sterkur og margar fuglategundir eiga þar athvarf. Landfyllingin hefur alla möguleika á að styrkja græna svæðið og auka útvistarmöguleika borgarbúa. Lagt verður kapp á að halda í menningarlandslagið og samspil náttúru og minja á svæðinu. Engin ákvörðun hefur verið tekin um framtíðarlandnotkun og því fullt tækifæri til að fylgja eftir góðum ábendingum Landverndar og annarra þegar kemur að þeirri vinnu.