Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um áhrif af göngugötum á umferð og mannlíf, umsögn - USK2020060047
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 81
9. september, 2020
Annað
Fyrirspurn
Lögð er fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um áhrif göngugatna á umferð og mannlíf, sbr. 5. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs 27. maí 2020. Einnig lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 3. september 2020.
Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Fulltrúi Flokks fólksins spurði hvort gerð hafi verið rannsókn á því hvaða áhrif lokun Laugavegarins hefur á umferð og mannlíf í kringum göngugötur. Spurt var einnig um mælingar og hvort fyrir liggi gögn sem styðja þá fullyrðingu um að mannlíf og verslun aukist með fleiri göngugötum? Í svari segir að í júlí var framkvæmd talning á bílaumferð á þessu svæði sem vita mátti vissulega að hafi minnkað en þó ekki hversu mikið. Umferð hefur snarminnkað enda Íslendingar hættir að fara niður í bæ nema af illri nauðsyn. Fyrir það líða verslanir, þær sem eftir eru. Vísað er í niðurstöður eldri rannsókna þ.m.t. frá London sem segja að hjólandi og gangandi eru líklegri en akandi að versla um þær götur sem þeir ferðast um Reykjavík er vissulega ekki London. Hjólandi er heldur ekki líklegri til að versla á Laugavegi en sá sem kemur akandi til að versla í ákveðinni sérverslun. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að fækkun bíla er í samræmi við fækkun fólks á Laugavegi og söluhrun sem verður í kjölfar götulokana. Af hverju neitar  Skrifstofa samgöngustjóra að horfast í augu við veruleikann sem við blasir og kýs þess í stað að ríghalda í gamlar, erlendar kannanir sem ekki eiga við hér í borg?
  • Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
    Eins og fram kemur í svari fyrir fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins hefur bílaumferð á gatnamótum Laugavegs og Frakkastígs minnkað um 54,6% milli 2015 - 2020 og bílaumferð á gatnamótum Grettisgötu og Vitastígs minnkað um 15,4% á sama tímabili. Ekki er tekið undir þau sjónarmið að minnkuð bílaumferð feli í sér minni fjölda fólks sem fer um svæið. Eins og kemur fram í svarinu ber flestum rannsóknum saman um að hjólandi og gangandi vegfarendur eru mun líklegri en akandi vegfarendur til að versla við þær götur sem þeir verðast um og eins og kemur fram í svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins í lið nr. 15 má áætla lauslega að nýting sölurýma á þessum slóðum sé yfir 90% - og því ekkert sem bendir til þess að minnkandi bílaumferð feli í sér minni umgang fólks eða minni verslun. Óskað er eftir því að fulltrúi Flokks fólksins leggi fram þær rannsóknir sem hann vísar í máli sínu til stuðnings þegar hann heldur því fram að minnkandi bílaumferð á Laugavegi haldist í hendur við fækkun fólks á Laugavegi og valdi söluhruni.