Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Nýi Skerjafj. Breytt landnotkun, breyting á aðalskipulagi
Síðast
Vísað til borgarráðs
á fundi fyrir 1 mánuði síðan.
Fundur nr. 75
3. júní, 2020
Samþykkt
Fyrirspurn
Lögð fram drög að tillögu umhverfis- og skipulagssviðs dags. í maí 2020, ásamt umhverfisskýrslu, að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er varðar skipulag byggðar í Skerjafirði. Í breytingunni felst breytt landnotkun, breytingar á byggingarmagni, lega stofn- og tengistíga er fest niður og tekið er tillit til umferðatenginga ásamt því að umfang landfyllinga er minnkað.
Svar

Samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata að kynna fyrirliggjandi drög að aðalskipulagsbreytingu, sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga, ásamt umhverfisskýrslu sbr. 7. gr. laga nr. 105/2006. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. Gögn verða send til skilgreindra hagsmunaaðila og kynnt á opnum fundi. Drögin verða auglýst í fjölmiðli og gerð aðgengileg á vef borgarinnar. Tillagan verður send til eftirfarandi umsagnaraðila: Svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins, Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Seltjarnarnesbæjar, Mosfellsbæjar, Kjósarhrepps, annarra nágrannasveitarfélaga, Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Minjastofnunar Íslands, Vegagerðarinnar, Samgöngustofu, Isavia, Náttúrufræðistofnunar, Hafrannsóknarstofnunar, Orkustofnunar, Veðurstofu Íslands, Veitna, Borgarsögusafns, Skóla- og frístundaráðs, skóla- og frístundasviðs, Umhverfis- og heilbrigðisráðs, Íbúaráðs Vesturbæjar, Íbúasamtaka Vesturbæjar, Íbúasamtaka Skerjafjarðar og Prýðisfélagsins Skjaldar.

Gestir
Haraldur Sigurðsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
 • Flokkur fólksins
  Í breytingunni er varðar skipulag byggðar í Skerjafirði felst m.a. að umfang landfyllinga er minnkað. Fram kemur í gögnum engu að síður að seinni áfangi er háður stærð landfyllinga. Að eyðileggja íslenskar fjörur með landfyllingum er skerðing á náttúrulegu útivistarsvæði. Það eru fá náttúruleg svæði sem er hægt að nýta árið um kring, en fjörur má alltaf nýta. Í langflestum tillögum meirihlutans sem fjalla um landnýtingu við ströndina er farið fram á landfyllingu. Fjörur við Reykjavík eru að verða af skornum skammti. Talað hefur verið um að sjávaryfirborð eigi eftir að hækka. Fram kemur að matið sem byggt er á, er frá 2013. Í því segir að hætta á hækkun sjávaryfirborðs sé um 4.5 m. til 6 m. á 100 ára tímabili og eina leiðin til að tryggja öryggi er með landfyllingu. Óvissa er með flugvöllinn. Borgarstjóri segir að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni a.m.k. í 15 ár og allsendis óvíst hvort hann fari yfir höfuð enda langt í land með að ljúka mælingum (veður- og flugmælingum) í Hvassahrauni. Fresta ætti sem mest byggingaráformum í nágrenni flugvallarins að mati fulltrúa Flokks fólksins. Við brotthvarf flugvallarins verður einfaldlega allt annað umhverfi í boði og lítil ef nokkur þörf verður þá á landfyllingum.
 • Miðflokkur
  Þann 29. nóvember 2019 gerðu ríkið og Reykjavíkurborg samkomulag um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni og á þeirri vinnu að vera lokið fyrir árslok 2024. Samkvæmt samkomulaginu á að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar meðan unnið væri að undirbúning og byggingu nýs flugvallar ef hann hugsanlega kæmi. Í samkomulaginu lýsir borgarstjóri yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi til að tryggja flugvöllin í Vatnsmýrinni. Nú er ljóst að samningurinn er ekki pappírsins virði því bæði kemur fram í greinargerð með frumvarpi um fjárhagsáætlun Reykjavíkur til 2024 og nú kynningu að gerð deiliskipulags fyrir nýjan Skerjafjörð að málið er keyrt áfram af fullum þunga og þar með er kominn forsendubrestur. Ég hef þegar tilkynnt stjórn umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis brot á samkomulaginu. Búið er að viðurkenna að mikil mengun er í jarðvegi á þessu svæði og ekki hefur verið fundin lausn á því hvernig á að fjarlægja hann. Nú hefur verið upplýst að líklega á að beina þeim þungaflutningum hringinn í kringum flugvöllinn og upp á Menntabraut hjá HR. Þetta eru fordæmalaus vinnubrögð og sýnir glöggt hversu borgarstjóri og meirihlutinn er veruleikafirrtur, ósvífinn og óheiðarlegur og láta sig engu skipta umhverfimál.
 • Sjálfstæðisflokkur
  Það er með ólíkindum að deiliskipulagsgerð fyrir nýja byggð í Skerjafirði sé komin á fulla ferð án vitundar og án nokkurs samráðs við íbúa í Skerjafirði og að búið sé að gefa lóðarvilyrði og úthluta lóðum á svæðinu án þess að nokkuð samráð hafi verið haft við íbúasamtök Skerjafjarðar en lóðarhöfum hins vegar boðið að koma að deiliskipulagsgerðinni. Það er augljóst mál að borgarstjórnarmeirihlutinn hefur meiri áhuga á samráði við verktaka en íbúa borgarinnar. Íbúar í Skerjafirði hafa margítrekað mótmælt fyrirhugaðri byggð og bent á að hún sé ekki í samræmi við þá byggðaþróun sem fyrir er í hverfinu og aðeins ein umferðartenging við hverfið. Verði þetta deiliskipulag að veruleika mun Skerjafjörðurinn verða stærsta botnlangabyggð landsins með hátt í 5000 íbúum með tilheyrandi umferðarþunga. Þá er með ólíkindum að deiliskipulag sé keyrt í gegn áður en fram hefur farið umhverfismat vegna landfyllingar og olíumengaðs jarðvegs á svæðinu og vegna samkomulags ríkis og borgar um að Reykjavíkurflugvöllur geti þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur er fullbúinn. Sömuleiðis liggur fyrir að fara á í gerð hverfisskipulag 2022 sem kallar á mikið samráð við íbúa varðandi skipulag hverfisins. Augljóst er að allt tal borgarstjórnarmeirihlutans um íbúalýðræði og umhverfisvernd er eingöngu til að skreyta sig með á tyllidögum.
 • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
  Breytingin er í samræmi við stefnu gildandi aðalskipulags um uppbyggingu á svæðinu og í samræmi við samning ríkisins og Reykjavíkur frá 2013. Í nýrri byggð í Skerjafirði er gert ráð fyrir þéttri lágreistri og nútímalegri strandbyggð. Staðsetningin býður upp á fallegt náttúrulegt umhverfi við fallega strandlengju sem gefur frábæra möguleika til útivistar og umhverfisvænna samganga. Íbúðirnar verði fjölbreyttar að stærð og eignarformi og nýr grunnskóli mun þjóna hverfinu öllu. Við fögnum þessari löngu tímabærri uppbyggingu og hlökkum til framhaldsins.