Heklureitur - Laugavegur 168 og 170-174, nýtt deiliskipulag
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 78
12. ágúst, 2020
Synjað
Fyrirspurn
Lögð fram umsókn Yrki arkitekta ehf. dags. 9. desember 2019 um nýtt deiliskipulag fyrir Lóðirnar að Laugavegi 168 og 170-174, Heklureitur. Í tillögunni felst að lóðinni Laugavegur 170-174 verði skipt í tvennt og vestari hluti hennar verði lóðirnar Laugavegur 170 og 172. Lóðirnar nr. 168 og 172 verði nýttar undir allt að 250 íbúðir. Valkvæð heimild er um að lóðin nr. 168 verði nýtt undir gististarfsemi. Eystri hluti lóðarinnar Laugavegur 170-174 verður Laugavegur 174. Heimilt verðu að auka byggingarmagn á lóðinni, byggja þrjár hæðir ofan á núverandi byggingar og byggja við 3. hæð norðurhliðar núverandi álmu við Laugaveg. Nýju hæðirnar og viðbyggingin eru undir atvinnustarfsemi. Valkvæð heimild er um að nýja byggingarmagnið verði nýtt undir allt að 90 íbúðir. Gert er ráð fyrir sex hæða bílgeymsluhúsi og núverandi byggingar verða nýttar undir atvinnustarfsemi. Á öllum lóðum er gert ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð, samkvæmt uppdr. Yrki arkitekta ehf. dags. 10. janúar 2020. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 2. júlí 2020.
Svar

Samþykkt, með fjórum greiddum atkvæðum, fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata, að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi með vísun til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 2. júlí 2020. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
  • Sjálfstæðisflokkur
    Skipulag Heklureits er algeru uppnámi en meira en þrjú ár eru síðan borgin gerði viljayfirlýsingu um uppbyggingu á reitnum. Samskipti borgarinnar við þróunaraðila hafa verið stirð og lítil. Nú er borgin að hafna hugmyndum lóðarhafa og uppbygging sett enn frekar á ís. 
  • Miðflokkur
    Að hafna þessari umsókn á breytingu á deiliskipulagi á Heklureit er valdníðsla stjórnvaldsins Reykjavíkurborgar á hendur einkaaðila gæti hugsanlega verið brot á eignarétti og yfirráðum eigna í þessu tilfelli lóðar. Í borgarráði þann 25. júní sl. var afturkölluð viljayfirlýsing frá 3. maí 2017 um samstarf milli borgarinnar og Heklu hf. vegna fyrirhugaðs flutnings fyrirtækisins í Suður Mjódd og þróun lóða félagsins við Laugaveg, samhliða flutningi á starfsemi þess. Afturköllunin var ákveðin í ljósi þess að samþykktar voru breyttar skipulagsáætlanir fyrir lóðir Heklu hf að Laugavegi og af því að ekki voru skilgreind ákvæði um uppbyggingarhraða í Suður Mjódd innan 2 ára frá undirritun viljayfirlýsingarinnar. Engin niðurstaða er því í málinu, nema sú að málið er á byrjunarreit og er til þess fallin að hrekja fyrirtækið úr borginni. Þetta mál er dæmalaust klúður að hálfu borgarinnar. 
  • Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
    Sveitarfélög fara með ábyrgð á skipulagi alls lands innan sinna marka. Umrædd lóð er á lykilsvæði á nýjum þróunarás og fyrsta áfanga borgarlínu og því mikilvægt að vel til takist. Uppbyggingin þarf að taka mið af aðalskipulagi og framtíðaruppbyggingu innan borgarinnar. Það er ekki valdníðsla að samþykkja ekki allar hugmyndir sem koma frá lóðarhöfum heldur ábyrgð yfirvalda að skipuleggja byggt umhverfi á sjálfbæran hátt með þarfir núverandi og komandi kynslóðir í huga.