Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, íbúðarbyggð og blönduð byggð, tillaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 83
7. október, 2020
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Lögð fram drög að tillögum umhverfis- og skipulagssviðs dags. í september 2020 að breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, sem fela m.a. í sér endurskoðun á stefnu um íbúðarbyggð og framlengingu skipulagstímabils til ársins 2040. Einnig eru lögð fram drög að nýjum viðauka við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2020 dags. í september 2020 og umhverfisskýrsla VSÓ-ráðgjafar dags. í september 2020. 
Svar

Kynnt.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Haraldur Sigurðsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Með uppfærðu skipulagi er verið að móta sýn til ársins ársins 2040. Borgarlína er fest í sessi ásamt lykilstöðvum hennar. Ábyrgðarhlutverk borgarinnar í loftslagsmálum er mikið og með breytingu á aðalskipulagi eru stór skref stigin í átt að sjálfbærni, kolefnishlutleysi og bættum lífsgæðum fyrir borgarbúa. Stutt er við markmið Parísarsáttmálans. Reykjavík verður áfram í forystu þegar kemur að húsnæðisuppbyggingu og stefnt er að uppbyggingu um 1000 íbúða á ári. Nýir og spennandi uppbyggingarreitir eru settir fram sem mikilvægt er að fylgt verði eftir. Sett eru viðmið um gæði íbúðarbyggðar og almenningsrýma en jafnframt stigin skref í átt til einföldunar ferla og meiri sveigjanleika. Þá er stefna um íbúðarbyggð samtvinnuð húsnæðisstefnu sem hefur það að markmiði að tryggja fjölbreytta byggð fyrir alla.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Í drögum að tillögu um breytingar á Aðalskipulagi „Nýr viðauki“ skortir á að nægt framboð af hagstæðu byggingarlandi sé tryggt. Uppsafnaður skortur á íbúðum fer vaxandi miðað við nýjustu upplýsingar Samtaka Iðnaðarins og er nauðsynlegt að borgin bjóði upp á fjölbreytta og hagkvæma valkosti. Í því sambandi væri nærtækt að heimila uppbyggingu á Keldum innan fimm ára, eða frá 2025. Þá er jafnframt mikið tækifæri í að heimila íbúðir í Örfirisey þar sem þjónusta og verslun er þegar til staðar. Ekki er vikið að því að starfssemi olíubirgðastöðvar á að minnka um helming fyrir 2025. Þá er ekki mælt fyrir íbúðum við BSÍ reit sem þó er í hugmyndasamkeppni. Skortur á hagstæðu byggingarlandi mun áfram leiða til verðhækkana á húsnæði í Reykjavík og gera ungu fólki og fyrstu kaupendum erfitt fyrir að velja borgina sem búsetukost. Í tillögunni er gert ráð fyrir yfir 4.000 íbúðum á flugvallarsvæðinu, en óraunhæft er að gera ráð fyrir þeim á skipulagstímabilinu. Tillagan gerir ekki ráð fyrir sveigjanleika hvað varðar notkunarheimildir atvinnuhúsnæðis. Undanfarin ár hafa sýnt hversu mikið getur breyst á stuttum tíma. Sú leið að hafa starfssemiskvóta án heimilda til sveigjanleika takmarkar notkunarmöguleika atvinnuhúsnæðis, ekki síst á jarðhæðum. 
  • Miðflokkur
    Verið er að framlengja skipulagstímabilið til 2040. Margt er jákvætt í þessum tillögum en annað ekki. Ekki er minnst á Sundabraut í tillögunum. Eins virðist það afdráttarlaus stefna að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýrinni þrátt fyrir að ekki er komin niðurstaða starfshóps um könnun á flugvallarkosti í Hvassahrauni. Gengið er mjög á græn svæði. Athyglisvert verður að sjá viðbrögð almennings og hagsmunaaðila við þessum tillögum að kynningu lokinni.
  • Flokkur fólksins
    Hér er verið að kynna stórt mál. Nokkrir punktar standa upp úr svona í fyrstu atrennu. Bílastæðum á að fækka og eru nokkrar áhyggjur af því. Bílum mun fjölga án efa en vonandi aðeins raf- og metanbílum. Aðgengi á vissa staði borgarinnar er erfitt og má nefna miðborgina. Þrátt fyrir þéttingu byggðar er borgin talsvert dreifð. Fólk þarf að geta komist um innan borgarinnar. Borgarlína er enn talsvert inn í framtíðinni og óvíst með almenna notkun hennar jafnvel þótt byggt sé þétt í kringum hana. Hvað varðar mannfjöldaspá hefur Hagstofan tekið inn nýja spá til ársins 2068. Í fyrra reiknaði hagstofan með verulegum aðflutningi fólks umfram brottflutning fram til ársins 2023 vegna efnahagsástands en þær forsendur eru úreltar. Atvinnutækifærum á að fjölga. Það þurfa að vera atvinnutækifærum í öllum hverfum. Fram kemur að varðveita eigi græn svæði. Til stendur engu að síður til að eyðileggja eina fallegustu náttúruperlu Reykjavíkur, Vatnsendahvarfið með lagningu Arnarnesvegar sem skera mun hæðina. Þetta stríðir gegn einu af leiðarljósum sem kynnt eru „að ekki verði gengið á svæði sem hafa hátt náttúru- og eða útivistargildi“. Hægt er að fara aðrar leiðir og hafa þær verið lagðar fram. Vel má tengja Arnarnesveginn inn á Tónahvarf og gera hringtorg við Breiðholtsbrautina/Vatnsendahvarf.