Skerjafjörður Þ5, deiliskipulag
Síðast Vísað til borgarráðs á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 77
1. júlí, 2020
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að nýju deiliskipulagi fyrir Nýja Skerjafjörð. Tillagan gerir ráð fyrir uppbyggingu um 700 íbúða, leikskóla, grunnskóla, bílageymsluhúsi, verslun, þjónustu og útivistarsvæðum. Tillagan gerir einnig ráð fyrir nýjum vegtengingum til austurs, suður fyrir Reykjavíkurflugvöll, sem er eingöngu ætluð almenningssamgöngum, gangandi og hjólandi vegfarendum. Einnig eru lagðir fram deiliskipulags-, skýringar- og skuggavarpsuppdr. ASK Arkitekta, EFLU og Landslags dags. 26. júní 2020, greinargerð og almennir skipulagsskilmálar dags. 26. júní 2020, sérskilmálar dags. 26. júní 2020, hönnunarleiðbeiningar dags. 26. júní 2020, skýrsla Minjasafns Reykjavíkur nr. 161 frá 2013 (byggðakönnun, fornleifaskrá og húsakönnun), drög að skýrslu Borgarsögusafns Reykjavíkur nr. 204 frá 2020 (fornleifaskrá og húsakönnun), fjórir undirritaðir samningar: samkomulega um skipulag og uppbygging á landi ríkisins við Skerjafjörð dags 1. mars 2013, samkomulag um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli dags. 19. apríl 2013, samkomulag um innanlandsflug dags. 25. október 2013 og kaupsamningur og afsal í framhaldi af formlegri lokun ríkisins á norður/suður og austur/vestur flugbrautar (braut (06/24) á Reykjavíkurflugvelli dags. 11. ágúst 2016. Jafnframt eru lögð fram ítargögn: skýrsla Eflu um jarðkönnun og mengunarrannsóknir í jarðvegi Skerjafjarðar dags. 29. janúar 2019, skýrsla Eflu um hljóðvist dags. 12. september 2019, samgöngumat Eflu dags. 26. júní 2020, skýrsla Eflu um vindgreiningu dags. 7. janúar 2020, minnisblað Eflu vindgreining - viðauki A dags. 16. júní 2020, minnisblað Eflu Vindgreining - viðauki B dags. 26. júní 2020 og minnisblað Eflu vegna færslu skipulagsmarka (áhrif færslu skipulagsmarka á umferð, hljóðvist og vindafar) dags. 26. júní 2020. Tillagan fellir úr gildi eldra deiliskipulag frá 16. janúar 1986, br. 1999. 
Svar

Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með fjórum greiddum atkvæðum: fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Svava Svanborg Steinarsdóttir og Jón Kjartan Ágústsson verkefnastjórar, Nína Gall Jörgensen og Sigurður Örn Jónsson frá EFLU og Páll Gunnlaugsson og Andri Klausen frá ASK arkitektum taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
  • Miðflokkur
    Þann 29. nóvember 2019 gerðu ríkið og Reykjavíkurborg samkomulag um að starfsemi flugvallarins í Vatnsmýri verði tryggð á þann hátt að hann geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt meðan unnið væri að undirbúning og byggingu nýs flugvallar, ef hann hugsanlega kæmi. Í samkomulaginu lýsir borgarstjóri yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi til að tryggja flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Nú er ljóst að samningurinn er ekki pappírsins virði því í kynningu að gerð og auglýsingu deiliskipulags fyrir nýjan Skerjafjörð að málið er keyrt áfram af fullum þunga og þar með er kominn forsendubrestur. Síðast í morgun, 1. júlí var samgönguráðherra á allt annari skoðun en hér birtist. Ráðherrann er ekki að fatta að verið er að þverbrjóta samkomulagið. Hér er verið að leggja til aukið byggingamagn úr 800 íbúðum í 1.300. Það er ljóst að þetta svæði ræður ekki við þann umferðarþunga sem af þessari uppbyggingu hlýst. Fyrst á að leggja „framkvæmdaveg“ meðfram flugvallargirðingunni sem breytast á í borgarlínu í framtíðinni. Í mengunarkönnun er einungis 1 af 96 holum sem falla í flokkinn „mjög góður“ og 16 holur falla í flokkana slæmt og mjög slæmt. Þessar staðreyndir segja okkur að það eigi alls ekki að byggja á þessu svæði.
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Tillaga að deiliskipulagi nýja Skerjafjarðar fer nú í langt kynningarferli yfir sumarið sem gefur íbúum og öðrum hagsmunaaðilum færi að kynna sér tillöguna og koma með athugasemdir varðandi útfærslu hennar. Áður hafa tillögur vegna hugmyndaleitar, rammaskipulags og aðalskipulags verið kynntar fyrir almenning. Tillagan er í samræmi við meginstefnu Aðalskipulags og fylgir eftir fjölda samninga milli ríkis og Reykjavíkurborgar sem varða aðbúnað Reykjavíkurflugvallar, endurnýjun flugbrauta, deiliskipulag fyrir Skerjafjörð, uppbygging nýrrar byggðar og lagningu nýrrar samgöngutengingar. Fyrir liggur kaupsamningur og afsal milli Reykjavíkurborgar og ríkissjóðs Íslands dags. 11. ágúst 2016. Tillagan skerðir ekki starfsemi Reykjavíkurflugvallar, enda stendur fyrirhuguð byggð utan við öryggissvæði flugvallarins og mun ekki fara upp fyrir hindrunarfleti. Unnin hefur verið ítarleg rannsókn á vindafari sem sýna að áhrif á flugvöllinn verða minniháttar. Nýr skóli, leikskóli, útivistarsvæði og matvöruverslun munu auka lífsgæði íbúa, bæta þjónustu og styðja við vistvæna samgöngumáta í þessu græna hverfinu. Tillagan gerir ráð fyrir gatnatengingu suður fyrir Reykjavíkurflugvöll sem mun tengjast nýrri brú yfir Fossvog og stytta ferðatíma fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur. Nýja samgöngutengingin mun einnig nýtast yfir framkvæmdartíma til að minnka álag á Einarsnes. Mengaður jarðvegur innan deiliskipulagssvæðis verður meðhöndlaður eftir ströngustu kröfum, líkt og gert hefur verið á öðrum uppbyggingarsvæðum í borginni.