Laugavegur í 9 skrefum, kynning
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 112
1. september, 2021
Annað
Fyrirspurn
Kynning á niðurstöðum forhönnunar.
Gestir
Rebekka Guðmundsdóttir deildarstjóri borgarhönnunar tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Tillögurnar gera ráð fyrir hönnun með árstíðabundnum görðum þar sem hverri árstíð eru gerð skil á Skólavörðustíg og neðsta hluta Laugavegar með áherslu á gróður og lýsingu sem nýtur sín allan ársins hring. Lögð er áhersla á aðgengi fyrir alla og algilda hönnun en enn frekari rýning á þeim atriðum er lykilatriði í vinnu framundan sem og samráð við aðgengis- og samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Eðlilegt er að framkvæma hugmyndirnar í skrefum á næstu 2-3 árum. Æskilegt væri að freista þess að reyna samræma útlit yfirborðs og götugagna enn frekar til að skapa heildstæða upplifun fyrir vegfarendur á götunum.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Mikilvægt er að gott samráð verði við rekstraraðila, neyðarbíla og aðra hagaðila vegna þessara fyrirætlana. Ljóst er að aðgengi mun breytast mikið við þessa framkvæmd og því nauðsynlegt að fá sjónarmið þeirra sem þurfa að komast um.
  • Sósíalistaflokkur
    Fulltrúi sósíalista fagnar þessari hönnun og er ánægður með áhersluna á aðgengi fyrir alla.
  • Miðflokkur
    „Laugavegur í 9 skrefum“ og niðurstaða forhönnunar var kynnt á fundinum. Þarna fá arkitektar, ljóshönnuðir og fleiri að leika sér með útsvarstekjur Reykjavíkur þráðbeint út um gluggann. Í kynningunni kemur fram að „von er um að framtíðar göngugötur fái sterka staðarsjálfmynd, staðaranda og ímynd og aukið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, fyrirtæki, fjárfesta og nýja íbúa með aðgengi fyrir alla í fyrirrúmi.“ Já einmitt – þessar tillögur ganga út á að loka alfarið á bílaumferð, umgegni þeirra sem komast ekki leiðar sinnar nema í hjólastól og skapa mikla hættu fyrir blinda og sjónskerta því verið er að setja blómaker, bekki og annað hist og her. Ekkert samráð var haft við verslunareigendur og rekstraraðila á svæðinu og er það mjög ámælisvert. Einnig er lýst yfir miklum áhyggjum af aðgengi slökkviliðs- og lögreglubíla að svæðinu. Ekki verður betur séð en að þessar aðgerðir þrengi verulega að aðkomu öryggisaðila í hættuástandi.
  • Flokkur fólksins
    Flestum hugnast göngugötur sem hluti af borgarstemningu þar sem þær eiga við en þær mega þó ekki vera á kostnað aðgengis og umfram allt þarf að skipuleggja þær í sátt og samlyndi við borgarbúa, íbúa í nágrenni og hagaðila. Aðgengi er sagt vera fyrir alla en það er ekki rétt sbr. kanta og kantsteina og óslétta fleti sem eru víða í göngugötum. Aðgengi er erfitt fyrir þá sem nota hjálpartæki, hjólastóla og hækjur. Taka má undir að skreytingar eru fínar og ekkert er yfir lýsingu,  blómum eða bekkjum að kvarta. Þó eru áhyggjur af því að sjónskertir detti um allt þetta götuskraut. Hvað sem öllum 9 skrefum Laugavegsins líður þá  stendur eftir sú staðreynd að svæðið sem um ræðir er einsleitara en áður var hvað varðar verslun. Tugir verslana hafa flúið af þeim götum sem nú eru göngugötur. Eftir eru barir og veitingahús. Verslanir fóru vegna þess að viðskipti snarminnkuðu af orsökum sem við þekkjum vel. Eldar í kringum Laugaveg og Skólavörðustíg hafa logað í meira 3 ár og loga enn.  Kannski átti engin von á að svo sterkt orsakasamhengi myndi vera milli lokunar fyrir umferðar og hruns fjölda verslana. En þegar það blasti við átti að staldra við og eiga tvíhliða samtal við hagaðila.