Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að fresta samþykktarferli hverfisskipulags í Breiðholti þar til Covid leyfir íbúaráðsfundi
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 79
26. ágúst, 2020
Annað
Fyrirspurn
Tillaga Flokks fólksins um að fresta/frysta samþykktarferli hverfisskipulags Breiðholts vegna COVID aðstæðna þar til hægt verði að hafa íbúaráðsfundi í Breiðholti. Eins og sakir standa er ekki hægt að bjóða upp á mannmarga viðburði til að ræða hugmyndir um nýtt hverfisskipulag í Breiðholti svo vel sé. Um er að ræða stórfelldar breytingar sem íbúar þess verða að fá fulla aðkomu að til að geta sett sig inn í það, mótað skoðanir og komið þeim á framfæri. Á með staðan er svona vegna COVID er það ábyrgðarhluti ef borgaryfirvöld ætla að kalla saman fólk á fundi til að ræða skipulag eða annað ef því er að skipta. Skipulagsyfirvöld geta nýtt tímann til að yfirfara þær ábendingar sem þegar hafa borist og aðlagað hverfisskipulagið að þeim. Nú hafa sem dæmi margir stigið fram og lýst áhyggjum sínum yfir stefnu skipulagsyfirvalda að þrengja að bíleigendum með þeim hætti að erfitt er að finna bílastæði. Bílastæðaskortur er nú þegar víða í Breiðholti sem dæmi í Seljahverfi og Austurberginu. Það er skortur á bílastæðum hjá FB þegar dagskólinn er. En ekkert skal gert nema í samráði við íbúana og séu íbúar ósammála innbyrðis eða ósammála skipulagsyfirvöldum er mikilvægt að kosið verði um þau atriði. Einfaldur meirihluti muni þá ráða. 
Svar

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Í byrjun sumars var ákveðið að setja ekki Hverfisskipulag Breiðholts í lögbundið samþykktar- og samráðsferli líkt og til stóð heldur bæta við ferlið auknu samráði. Það hefur falist í kynningum á heimasíðum verkefnisins, samfélagsmiðlum og dagblöðum. Einnig hefur hverfisskipulagið verið kynnt í Gerðubergi þar sem öllum hefur boðist að mæta. Þar var hægt að rýna allar tillögur, greiningarvinnu og helstu forsendur skipulagsins. Þar voru til svara starfsfólk skipulagsfulltrúa sem unnið hefur við hverfisskipulagið síðustu ár. Einnig verður skipulagið kynnt með sambærilegum hætti í Mjódd. Þrír göngutúrar hafa verið skipulagið með íbúum um hverfið til að fara yfir tillögurnar, hitta faglega ráðgjafa skipulagsins, ræða og koma með ábendingar. Allt er þetta viðbótarsamráð við það samráð sem nú þegar hefur verið haft við gerð Hverfisskipulags Breiðholts sem fólst í því að virkja alla aldurshópa, með þátttöku grunnskóla, rýnihópa og opnum íbúafundum. Að lokum er rétt að benda á að lögbundið samráð með lögformlegri auglýsingu mun einnig eiga sér stað og gefst þá öllum tækifæri á að koma sínum athugasemdum á framfæri.
  • Flokkur fólksins
    Tillaga Flokks fólksins um að fresta samþykktarferli hverfisskipulags Breiðholts vegna COVID aðstæðna þar til hægt verði að hafa íbúaráðsfundi í Breiðholti hefur verið felld. Skipulags- og samgönguráð er með því að axla ábyrgð á að fólk sem ekki kemst út vegna COVID aðstæðna komist ekki til skrafs og ráðagerðar vegna nýs hverfisskipulags. Nú er ekki hægt, vegna COVID að hafa hefðbundna íbúafundi. Svo virðist sem skipulagsyfirvöld ætli ekki að aðlaga sig að aðstæðum og tryggja samráðsvettvang fyrir þá sem eru í einangrun/sóttkví/sjálfskipaðri sóttkví. Slíkt er aðeins ávísun á seinni tíma vandamál ef fólk kemst ekki til að koma skoðunum sínum á framfæri .Allt þarf að gera til að ná til fólks sem lokað er inni vegna COVID. Koma mætti t.d. upp sérstökum ábendingarhnappi á vefsíðu Reykjavíkur og auglýsa sérstakt símanúmer hafi viðkomandi áhuga á að ræða hverfisskipulagið við skipulagsfrömuði borgarinnar. Heiðarlegast gagnvart íbúum Breiðholts er að beðið verði eftir að COVID aðstæður verði öruggari og þá verði haldnir íbúaráðsfundi í hverju hverfi og fyrir hverfið í heild. Gæta þarf jafnræðis og sjá til þess að allir hafi jöfn tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri með beinum hætti.