Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu,
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 76
10. júní, 2020
Annað
Fyrirspurn
Fulltrúi Flokks fólks leggur til að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum, skólalóðum og útivistarsvæðum. Hér er aftur staðfest, og nú í ályktun íbúasamtaka í vesturhluta Reykjavíkur, hvernig samráð er hunsað. Fólki er boðið upp á að koma með tillögur og athugasemdir sem síðan er varla litið á. Í ályktuninni er lýst áhyggjum af hvernig þéttingastefna meirihlutans er farin að ganga á græn svæði borgarinnar. Segir í ályktuninni að "íbúar hafi ítrekað bent á þessa þróun í gegnum athugasemdir sínar við deiliskipulagsvinnu borgarinnar. Málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga ber þess merkis að vera eingöngu formlegs eðlis þar sem íbúum gefst í reynd ekki tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif. Réttur til athugasemda er lítils virði ef einungis er tekið mark á athugasemdum frá opinberum aðilum en látið hjá líða að taka mark á athugasemdum íbúa. Samráðsleysið við borgarbúa sem ítrekað benda á hvernig auka megi gæði almenningsrýma er áberandi." Svo virðist sem engin takmörk séu þegar þétta á byggð. Ofuráhersla á þéttingu byggðar má aldrei vera gerð á kostnað grænna svæða í borginni.
Svar

Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Fulltrúi Flokks fólks lagði til að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum, skólalóðum og útivistarsvæðum. Tillagan hefur verið felld. Kvartanir hafa borist frá m.a. íbúðaráði og einnig einstaklingum að skipulagsyfirvöld séu æ meira að ganga á græn svæði og eyðileggja náttúru. Fólki finnst sem ekki sé á það hlustað þótt boðið sé upp á að koma með tillögur og athugasemdir. Að það sé meira til málamynda og til að geta sagst hafa gefið borgarbúum tækifæri til að tjá sig. Ætla má að ábendingar um þetta berist ekki borginni að ósekju. Það kann að vera að meirihlutinn sé kominn með þéttingarstefnu sína út í öfgar. Ef svo er þá er það miður. Eyðilegging á grænu svæði er oftast nær óafturkræfanleg. Hugsa þarf til framtíðar og þeirra sem erfa eiga borgina og landið. Hver vill búa í borg sem er lítið annað en steinsteypa.
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Það er fráleitt að leggja fram "tillögu" um hvaða stefnu aðrir kjörnir fulltrúar eigi að hafa um hin og þessi mál. Tillögur eiga að snúast um hvað stjórnvaldið Reykjavíkurborg eigi að gera ekki aðrir kjörnir fulltrúar. Tillögunni er vísað frá.