Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu,
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 73
20. maí, 2020
Annað
Fyrirspurn
Flokkur fólksins leggur til að settur verði  hámarkshraði hjóla á göngu- og hjólastígum og aðliggjandi gangstéttum til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi. Flokkur fólksins bendir jafnframt á að tilefni kann að vera til að auka eftirlit með umferð á gangstígum vegna t.d. mikillar umferðar á rafknúnum vespum, raf-hlaupahjólum og öðrum minni vélknúnum faratækjum. Hjólreiðar hafa aukist og er það vel. Hins vegar hafa kvartanir einnig aukist sem lúta að hættu sem stafar af hjólreiðamönnum sem hjóla fram hjá gangandi vegfaranda eða hjólreiðamanni á mikilli ferð. Heimilt er að hjóla á gangstétt, göngustíg eða göngugötu, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum eða liggi sérstakt bann við því. Hjólreiðamaður skal gæta ýtrustu varkárni og ekki hjóla hraðar en svo að hann geti vikið úr vegi fyrir gangandi vegfarendum. Skort hefur á að borgaryfirvöld birti og minni á reglur um hjólreiðar. Skortur er á viðeigandi fræðslu og viðvörunum svo varast megi óhöpp og slys.  Slys hafa orðið og enn oftar legið við slysum þar sem hjólandi ekur fram hjá á miklum hraða og rekur sig í  hjólreiðamann, eða gangandi vegfaranda. 
Svar

Fellt með 4 greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá.

Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Tillaga Flokks fólksins um hámarkshraða á hjólastígum hefur verið felld í skipulagsráði með þeim rökum að ekki þurfi að auka eftirlit með hjólreiðafólki og að ekki sé minnst á hámarkshraða á hjólastígum í nýjum umferðarlögum og  að ekki sé því ljóst hvort sú heimild sé til staðar eða hver ætti að framfylgja henni. Flokkur fólksins vill benda á að nýju umferðarlögin setja ákveðnar almennar reglur um ökuhraða. Þær reglur gilda gagnvart ökumanns ökutækis. Reiðhjól teljast til ökutækja, en ökutæki eru skilgreind sem svo: Tæki á hjólum, beltum, völtum, meiðum eða öðru sem ætlað er til aksturs á landi og eigi rennur á spori. Það er því ljóst að almennur 50 km/h hámarkshraði ökutækja gildir um reiðhjól, sbr. 2. mgr. 37. gr. Sá hámarkshraði gildir um ökutæki en ekki ákveðna vegi. Það ber að virða þennan hámarkshraða og það ber að hafa eftirlit með því að hann sé virtur. Það virðist sem svo að hjólastígar sem ekki liggja samhliða götum falli utan skilgreiningar nýju umferðarlaganna um vegi og því gildi heimild veghaldara til að ákveða hámarkshraða ekki um hjólastíga. Eflaust er um yfirsjón að ræða. Eftir stendur þó að veghaldara er heimilt að ákvarða hámarkshraða á göngustígum. Huga þarf betur að öryggi hjólandi og gangandi á blönduðum stígum.
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Ekki er fallist á þau rök að auka þurfi eftirlit með hjólreiðafólki. Ekki er minnst á hámarkshraða á hjólastígum í nýjum umferðarlögum og því ekki ljóst hvort sú heimild sé til staðar, hver ætti að fylgja henni eftir eða hver viðurlögin yrðu. Í nýjum leiðbeiningum sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins og Vegagerðarinnar fyrir hjólastíga kemur fram að hönnunarhraði hjólastíga sé 20 til 40 km á klst.