Sumargötur 2020
Síðast Samþykkt á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 72
13. maí, 2020
Frestað
Fyrirspurn
Lagt fram bréf Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 12. maí 2020, tillaga um sumargötur þ.e. tímabundnar göngugötur í miðborginni frá 5. júní til 1. október.
Svar

Frestað.

Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Flokkur fólksins hefur varað skipulags- og samgönguráð við að samþykkja þessa viðbót göngugatna án samráðs og samtals við alla rekstrar- og hagsmunaaðila. Ákveðið hefur verið að fresta málinu um viku. Vonandi verður sú vika notuð til að tala t.d. við Miðbæjarfélagið í Reykjavík. Nóg er komið af þessari sorgarsögu vegna lokunar umferðar í miðbænum og hrun verslunar. Miðbærinn hefur verið í öllum mögulegum birtingarmyndum síðustu öld, ýmist dauður eða lifandi og allt þar á milli. Fulltrúi Flokks fólksins sem er borinn og barnfæddur í vesturbæ Reykjavíkur  hefur aldrei séð yfirvald ganga fram með slíku offorsi að breyta vinsælustu götum miðbæjarins í trássi við fólkið.  Nú er lagt til að bæta við göngugötur, svokallaðar sumargötur sem skulu vera tímabundnar. Þetta er spurning um samráð og sátt og vonandi næst að hefja alvöru samtal og umræður við aðila á þessari viku sem málinu hefur verið frestað um. Einnig segir að almenn umferð og bifreiðastöður verði óheimilar. Á það skal enn og aftur minnt að P merktir bílar hafa heimild í lögum að aka göngugötur og leggja þar samkvæmt nýjum umferðarlögum. Ekkert heyrist frá borgarmeirihlutanum um þessa heimild hvorki í ræðu né riti.
  • Miðflokkur
    Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarsstjórn sagði í grein í Fréttablaðinu þann 12. maí s.l. að hún væri „að laga Laugaveginn með því að gera hann að göngugötu.“ Jafnframt heyrði hún fortíðarskvaldrið óma þar sem klappstýrur afturhaldsins halda áfram að því er virðist endalausum svanasöng bílaborgarinnar í takt við dauðateygjur arfleifðar borgarstjórnartíðar Davíðs Oddssonar. Meirihlutinn er með hann og Sjálfstæðisflokkinn á heilanum og ef þau komast í vörn, sem er alltaf að verða algengara, þá er allt Sjálfstæðisflokknum að kenna. Meira að segja er uppgerð Óðinstorgs fyrir framan heimili borgarstjóra upp á hundruði milljóna Sjálfstæðisflokknum að kenna. Síðan segir píratinn að meirihlutinn vilji minni losun gróðurhúsalofttegunda, auka samkeppnishæfni og meira valfrelsi fyrir betri, skemmtilegri og manneskjulegri borg. Fagnaðarlætin eru eftirtektarverð þegar hún lýsir því yfir að borgarbúar völdu umhverfið, grósku og sjálfbæra og nútímalega framtíðarsýn fyrir fólk fyrst og fremst, þar sem líffræðilegur fjölbreytileiki, lýðheilsa og lifandi og opið samfélag fær að blómstra, í síðustu borgarstjórnarkosningum. Einmitt…!!! Meirihlutinn féll í annað sinn og er viðreistur með Viðreisn sem seldi sig fyrir nefndarlaun og stjórnarsetur í dótturfélögum borgarinnar til að fá þykkara launaumslag. Í kosningunum 2014 voru það Píratar sem voru í þessu hlutverki. Það þarf ekki fleiri vitnanna við.