Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðis, endurskoðun, fjölgun byggingarsvæða, tillaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Skipulags- og byggingarráð nr. 756
12. apríl, 2022
Annað
Fyrirspurn
Tekin til umræðu tillaga bæjarstjórnar sem samþykkt var þann 23. febrúar 2022. "Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir fyrir sitt leyti að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins verði tekið til endurskoðunar með það að markmiði að fjölga byggingarsvæðum." Tillögunni var vísað til umræðu hjá skipulags- og byggingarráði úr bæjarráði þann 3.3.sl. og óskað er eftir minnisblaði frá umhverfis- og skipulagssviði yfir nýbyggingarsvæði bæjarfélagsins til ársins 2040. Minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs lagt fram.
Svar

Skipulags-og byggingarráð tekur undir tillögu og greinargerð lagða fram í bæjarstjórn þann 23.2.2022 þess efnis að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins verði tekið til endurskoðunar með það að markmiði að fjölga nýbyggingarsvæðum.

Áheyrnarfulltrúar Viðreisnar og Bæjarlistans telja þetta mál vanreifað með öllu.
Því er ósvarað hvernig fólk í þessum nýju hverfum á að komast leiðar sinnar og hvaða áhrif það mun hafa á umferð á Reykjanesbrautinni. Í greiningarvinnu vegna svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins árið 2013 kom fram að útþensla byggðar myndi leiða til stóraukinna tafa í umferð og er það að óbreyttu bein afleiðing af þessari hugmynd.
Þá hefur engin skoðun farið fram á kostnaði við innviði þessara nýju hverfa en uppbygging á nýjum hverfum kostar sveitafélög gríðarmikið fjármagn sem nýtist þá ekki við að bæta innviði í þegar byggðum hverfum. Þessi hugmynd mun því tefja fjölmörg framfaraverkefni innan allra hverfa Hafnarfjarðar.

Fulltrúi Samfylkingarinnar tekur undir tillögu um endurskoðun svæðaskipulags, fjölgun byggingarsvæða. Jafnframt fagnar fulltrúi Samfylkingarinnar því að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sé að vakna af doðanum og framtaksleysinu núna örfáum vikum fyrir kosningar. Nú allt í einu eru skipulagsmál og vöntun á framboði fjölbreyttra íbúða komin á dagskrá eftir réttmæta gagnrýni Samfylkingarinnar. Þetta sýnir algjöran skort á framtíðarsýn og táknrænt fyrir þreytuna við stjórn bæjarins á yfirstandandi kjörtímabili, en kjörtímabilinu fækkaði íbúum Hafnarfjarðar í fyrsta skiptið í 80 ár og fjölgun íbúa hefur verið langt undir áætlunum. Þá voru miklar hugmyndir um þéttingu byggðar, en lítið sem ekkert þokast áfram í þeim efnum. Þar er allt í stóru stoppi. Jafnaðarmenn við stjórn bæjarins eftir kosningarnar í vor munu tryggja að byggt verði á nýjum svæðum og einnig þétta byggð.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
Það er auðvitað dæmalaus þvættingur í málflutningi fulltrúa Samfylkingarinnar sem heldur engu vatni. Núverandi meirihluti hefur einmitt úthlutað lóðum fyrir ríflega 2.000 íbúðir á kjörtímabilinu 2018-2022. Þær skipulagstillögur sem inn hafa komið gera einmitt ráð fyrir fjölbreyttu formi íbúða, Bjarg íbúðafélag er að byggja 148 íbúðir, samþykkt hafa verið stofnframlög til Brynju hússjóðs ÖBÍ, sérstök samningsmarkmið í þéttingu byggðar og svo mætti lengi áfram telja. Samhliða því sem lóðum hefur verið úthlutað á nýbyggingarsvæðum hefur markvisst verið unnið að því að þétta byggð líkt og sést víða um bæinn; uppbygging við Dvergsreit, við Stekkjahraun, á Hrauntungu og við Hjallabraut eru svæði og reitir þar sem framkvæmdir eru þegar hafnar og jafnvel langt komnar. Einnig er samþykkt deiliskipulag á Hraunum vestur, tillaga sem fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Bæjarlistans lögðust hart gegn á sínum tíma. Einnig er í gangi deiliskipulagsvinna fyrir spennandi Óseyrarhverfi við höfnina. Þrátt fyrir þetta allt er nauðsynlegt að tryggja að áfram, til næstu ára og inn í nánustu framtíð, að mögulegt sé fyrir bæjarfélagið að brjóta nýtt land til uppbyggingar samhliða þéttingu byggðar. Það er gert til að svara þeirri miklu þörf sem fyrirsjáanleg er á næstu árum á húsnæðismarkaði hér á höfuðborgarsvæðinu. Engar tillögur hafa komið fram frá Samfylkingunni þess efnis á kjörtímabilinu, né tillögur til að hraða uppbyggingu í bæjarfélaginu. Mikil vinna meirihlutans á kjörtímabilinu er nú að bera ávöxt líkt og allar tölur sýna, m.a. frá SI og HMS. Við ætlum að halda áfram á þeirri vegferð.

Áheyrnarfulltrúar Viðreisnar og Bæjarlistans bóka:
Samkvæmt nýbirtri skýrslu SSH þá eru 14.000 íbúðir í samþykktu skipulagi á höfuðborgarsvæðinu sem undirstrikar að það eru engar forsendur fyrir því að taka ákvarðanir í óðagoti í jafn mikilvægum málaflokki sem svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins er.
Það er gríðarlegur fjöldi verkefna innan byggðamarka svæðisskipulags í Hafnarfirði sem bærinn gæti lagt meiri vinnu við að rækta sem myndi efla sjálfbærni hverfa, fjölga íbúum og gera bæinn blómlegri. Lélegur árangur undanfarinna ára er ekki þéttingarstefnu að kenna heldur lélegri framkvæmd núverandi meirihluta. Árinni kennir illur ræðari.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
Þegar fulltrúi Viðreisnar segir að lélegur árangur undanfarinna ára sé ekki þéttingarstefnu að kenna heldur lélegri framkvæmd núverandi meirihluta, er rétt að benda fulltrúanum á að m.v. fjölda íbúða í byggingu á hverja þúsund íbúa hér á höfuðborgarsvæðinu eru tölurnar eftirfarandi skv. greiningu og talningu SI og HMS:

Hafnarfjörður er með 27 íbúðir í byggingu á hverja 1000 íbúa.
Reykjavík er með 19 íbúðir í byggingu á hverja 1000 íbúa.
Kópavogur er með 21 íbúð í byggingu á hverja 1000 íbúa.
Garðabær er með 37 íbúðir í byggingu á hverja 1000 íbúa.
Mosfellsbær er með 13 íbúðir í byggingu á hverja 1000 íbúa.

Hafnarfjörður er því að standa sig vel, það sýna allar tölur, og það ætlum við að gera áfram.

Fulltrúar Bæjarlistans, Samfylkingar og Viðreisnar hafa stutt dyggilega við tillögur um þéttingu byggðar, s.s. Hraun-vestur. Rammaskipulag fyrir svæðið var unnið með faglegum hætti í breiðu samráði við íbúa og hagaðila, sem var samþykkt í skipulags- og byggingaráði, en var síðan hafnað í bæjarstjórn. Deiliskipulag Hraun, gjótur, gerði ráð fyrir óhóflegu byggingarmagni sem var í engu samræmi við rammaskipulag eða aðliggjandi byggð, einnig gæði byggðar, skuggavarp og fjöldi bílastæða. Þetta er eitt dæmið af mörgum um óvönduð og ólýðræðisleg vinnubrögð meirihlutans á kjörtímabilinu, skort á framtíðarsýn og hringlanda í skipulags- og byggingarmálum. Staðreyndin er sú að deiliskipulag fyrir svæðið var samþykkt 2019, en engin uppbygging er enn hafin á svæðinu þrátt fyrir fögur fyrirheit.

Fulltrúi Samfylkingarinnar bókar að á síðasta ári fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar aðeins um 0.25% og árið 2020 fækkaði þeim í fyrsta skiptið í 80 ár. Samkvæmt miðspá húsnæðisáætlunar Hafnarfjarðarbæjar er einungis gert ráð fyrir 152 nýjum íbúðum á þessu ári. Þetta eru staðreyndir máls og uppskera Sjálfstæðisflokksins eftir átta ár í meirihluta.

Fulltrúi Viðreisnar bókar:
Það er mjög erfitt að skilja hvernig meirihlutinn telur á sama tíma gríðarlega mikla uppbyggingu vera í gangi og vill þess vegna umbreyta stórum langtímaáætlunum í svæðisskipulagi vegna þess að það er of lítið byggt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
Það er alveg ljóst, skv. fyrirliggjandi tölum, að 811 íbúðir eru í byggingu í Hafnarfirði eins og staðan er í dag. Sú tala fer ört hækkandi. Auk þess er um að ræða 244% fjölgun íbúða í byggingu á tímabilinu september 2021 ? mars 2022, en slík fjölgun er ekki til staðar í neinu öðru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu og sýnir það svart á hvítu að sú mikla vinna meirihlutans í skipulagsmálum á kjörtímabilinu er nú að skila árangri. Ástæðan fyrir því að lagt er til að svæðisskipulagið verði tekið upp og sá möguleiki opnaður að hægt verði að brjóta nýtt land til uppbyggingar er einfaldlega vegna þess að mikið hefur verið gert á liðnum árum, lóðum úthlutað fyrir 2.000 íbúðir samhliða þéttingu byggðar, sem er ástæða þess að það byggingarland sem til staðar er innan núgildandi svæðisskipulags er svo gott sem uppurið ef frá er talin Vatnshlíðin sem liggur undir línum.