Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2022 og 2023-2025
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 1 viku síðan.
Bæjarráð nr. 3589
18. nóvember, 2021
Annað
Fyrirspurn
2. liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 5.nóvember sl. Eftirfarandi tillögur voru lagðar fram á fundi fjölskylduráðs þann 18.10.2021 sl. og eru lagðar hér fram til afgreiðslu.
1. Breyting á grunnviðmiði tekjutengingar Grunnviðmið tekjutengingar verði hækkuð úr 322.000 kr. í 351.000 kr. Þetta leiðir af sér að fleiri sem eru tekjulágir munu falla undir hærri afsláttarkjör vegna heimaþjónustu. Viðmið varðandi frístundastyrk hækkar í hlutfalli við þessa hækkun og geta þá fleiri nýtt sér frístundastyrk en áður.
Fjölskylduráð samþykkir þessa tillögu. Tillagan leiðir ekki til viðbótarkostnaðar á næsta ári, rúmast inn í þeirri áætlun sem rætt hefur verið um og vísað til bæjarstjórnar.
2. Hækkun greiðslna til stuðningsfjölskyldna Lagt til eftirfarandi breyting á gjaldskrá: - Umönnunarflokkur 1 fari úr 30.926 kr. og í 37.961 kr. - Umönnunarflokkur 2 fari úr 24.009 kr. og í 29.376 kr. - Umönnunarflokkur 3 fari úr 22.419 kr. og í 24.878 kr. Viðmið er gjaldskrá í Mosfellsbæ sem eru næst hæstir þegar borin eru saman sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Áætluð kostnaðaraukning er 5,5 milljónir á ári.
Fjölskylduráð samþykkir þessa tillögu og vísar til umræðu um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn.
3. Ráðning verkefnastjóra vegna heimilislausra. Samstarfsverkefni. Hafnarfjörður tekur þátt í samstarfi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur um ráðningu verkefnastjóra vegna heimilislausra. Hlutverk verkefnastjóra er þá að samræma aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu og koma með tillögur að lausnum. Kostnaður á ári er 12.500.000 kr. og hlutur Hafnarfjarðar er þá rúmlega 3.600.000 kr. á næsta ári.
Eftir fund í SSH var rætt um að verkefnastjóri væri ráðinn í hálft ár og er þá kostnaður Hafnarfjarðar 1.800.000 kr. Fjölskylduráð samþykkir að ráðinn verði verkefnastjóri í hálft ár. Fjölskylduráð samþykkir þessa tillögu. Tillagan leiðir ekki til viðbótarkostnaðar á næsta ári, rúmast innan þeirra áætlunar sem rætt hefur verið um og vísað til bæjarstjórnar.

12. liður úr fundargerð bæjarstjórnar frá 10.nóvember sl. sjá bókun hér fyrir neðan.
Svar

Tillaga að afgreiðslu: Tillögunni er vísað til frekari umfjöllunar í bæjarráði.

Vísað er til fyrri afgreiðslu.


Tillögur Samfylkingarinnar:

Tillaga 3 - Úttekt á á fólksfækkun í Hafnarfirði

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að úttekt verði gerð á þeirri fólksfækkun sem hefur átt sér stað í Hafnarfirði síðustu misseri. Í því felst að kortleggja hvaða hópar eru einkum að flytja úr bænum, hvers konar húsnæði vantar og hvar eru tækifæri til uppbyggingar í landi Hafnarfjarðar. Með hliðsjón að úttektinni verði farið í átak að efla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði.

Greinargerð
Í tölum Þjóðskrár kemur fram að íbúum hefur fækkað frá árinu 1. des. 2019 til 1. september 2021 um 312. Þetta er í fyrsta skiptið í 80 ár sem íbúum Hafnarfjarðar fækkar, en á sama tíma fjölgaði íbúum í nágrannasveitarfélögunum um 1.1-3.4%. Samkvæmt áætlunum aðalskipulags er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi að lágmarki um 1.2% (335-445 íbúa) á ári fram til ársins 2040. Ljóst er að það þarf að lyfta grettistaki til að snúa þessari þróun við og vinna til baka umrædda fækkun.

Tillaga að afgreiðslu: Tillögunni er vísað til frekari umfjöllunar í bæjarráði.

Afgreiðslu frestað til næsta fundar.


Tillaga 4 - Samgöngusamningar

Fulltrúar Samfylkingarinnar endurflytja tillögu um að Hafnarfjarðarbær bjóði starfsfólki sínu upp á samgöngusamninga.

Greinargerð:
Í kjölfar tillögu frá fulltrúum Samfylkingarinnar um samgöngustyrki sem lögð var fram í bæjarstjórn sumarið 2018 var sett af stað tilraunaverkefni hjá Hafnarfjarðarbæ sem ekki hefur verið fylgt frekar eftir. Samgöngusamningar hafa hins vegar verið teknir upp í fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum, ásamt m.a. Reykjavíkurborg, með góðum árangri. Áhersla á lýðheilsu á að vera forgangsmál og mikilvægt að heilsubærinn Hafnarfjörður sýni gott fordæmi með því að bjóða starfsfólki sínu samgöngusamninga og hvetja þannig til umhverfisvænni ferðamáta.

Tillaga að afgreiðslu: Tillögunni er vísað til frekari umfjöllunar í bæjarráði.

Afgreiðslu málsins frestað til næsta fundar.


Þá tekur Sigurður Þ. Ragnarsson til máls og leggur fram svohljóðandi tillögur við fjárhagsáætlun:

Bæjarfulltrúi Miðflokksins leggur fram eftirfarandi tillögur við fjárhagsáætlanagerð.

1)

Miðflokkurinn leggur til að Hafnarfjarðarbær hafi frumkvæði að því að leita til eigenda einkarekinna heilsugæslustöðva með það að markmiði að komið verði á fót slíkri heilsugæslustöð í bænum. Biðtími eftir tíma hjá heilsugæslulækni í Hafnarfirði er alltof langur. Biðtími á einkareknum heilsugæslustöðvum er mun styttri og boðleiðir markvissari. Vera kann að bærinn þurfi að liðka fyrir slíku með öflun húsnæðis eða afsláttar af fasteignaskatti til að byrja með. Raunveruleikinn er sú að fjölmargir Hafnfirðingar leita nú eftir heilsugæsluþjónustu utan sveitarfélagsins. Er lagt til að tillögunni verði vísað til bæjarráðs til efnislegrar umræðu.

Bæjarráð tekur undir markmið tillögunnar og vísar sérstaklega til þess að sérstök lóð hafi nú þegar verið tekin frá fyrir heilsugæslu og tengda starfsemi í nýju uppbyggingarhverfi Hafnarfjarðar, Hamranesi. Bæjarráð felur bæjarstjóra að halda áfram virku samtali við stjórnvöld vegna þessa.

Fulltrúi Miðflokksins bókar eftirfarandi:
Það ríkir ófremdarástand í aðgengi að heimilslæknum í Hafnarfirði. Þúsundir Hafnfirðinga hafa ekki skráðan heimilislækni. Ekki er óalgengt að biðin sé 2-4 vikur eftir tíma hjá heilsugæslulækni. Slíkt er óþolandi.
Ríkið dregur lappirnar í þessu endalaust og nú er svo komið að ekki verður við unað. Því þarf Hafnarfjarðarbær að hafa frumkvæði að því að fá einkarekna heilsugæslu í bæinn, ekki ósvipað því og er í Kópavogi. Þurfi að liðka til með til dæmis afslætti af fasteignagjöldum fyrsta árið verður svo að vera. Við þetta ástand verður ekki búið lengur.Þá tekur Guðlaug Kristjánsdóttir til máls og leggur fram svohljóðandi tillögur við fjárhagsáætlun:


Tillaga 2 - Aukið verði við stöðugildi fjölmenningarfulltrúa

Fulltrúar Samfylkingar og Bæjarlista leggja til að aukið verði við stöðugildi fjölmenningarfulltrúa úr 50% í 100%.

Bæjarráð óskar eftir umsögn frá á fjölskyldu- og barnamálasviði.


Greinargerð:
Á fundi fjölskylduráðs þann 5. nóvember sl. var sama tillaga lögð fram en hafnað af fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra. Fulltrúar Samfylkingar og Bæjarlista telja hins vegar brýnt að bæjarstjórn taki afstöðu til málsins, enda hafa ekki allir flokkar atkvæðisrétt á fundum fjölskylduráðs.
Nauðsynlegt er að efla starf fjölmenningarfulltrúa frá því sem nú er til þess að styðja við það mikilvæga starf sem hann sinnir. Við gerð síðustu fjárhagsáætlunar óskaði fjölmenningarráð eftir því að stöðugildi fjölmenningarfulltrúar yrði aukið úr 50% í 100% en meirihlutinn hafnaði þeirri tillögu. Við teljum mikilvægt efla þessa starfsemi hjá bæjarfélaginu og leggjum því tillögunna fram í bæjarstjórn fyrir fjárhagsáætlun 2022 og óskum eftir að bæjarstjórn taki afstöðu til hennar.


Þá tekur Friðþjófur Helgi Karlsson til máls og leggur fram svohljóðandi tillögur við fjárhagsáætlun:


Tillaga 8 - Niðurgreiðsla á strætókortum

Fulltrúar Samfylkingarinnar endurflytja tillögu um niðurgreiðslu á strætókortum fyrir börn að 18 ára aldri.

Greinargerð:
Mikilvægt er að jafna og auðvelda aðgengi ungmenna að tómstundum. Niðurgreidd stætókort hvetja einnig til aukinnar notkunar á almenningssamgöngum og styðja þannig við umhverfissjónarmið. Kostnaðarmat hefur áður verið gert og leggja fulltrúar Samfylkingarinnar
til að það verði uppfært og tillagan tekin aftur til umfjöllunar.

Tillaga að afgreiðslu: Tillögunni verði vísað til frekari umfjöllunar í umhverfis- og framkvæmdaráði og bæjarráði.

Bæjarráð óskar eftir umsögn frá umhverfis- og skipulagssviði.


Tillaga 10 - Uppbygging á hagkvæmu húsnæði

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að Hafnarfjarðarbær leiti leiða til að fara í frekara og meira samstarf við óhagnaðardrifin leigufélög um uppbyggingu hagkvæmra íbúða í bæjarfélaginu.

Greinargerð:
Í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem er á húsnæðismarkaði og fólksfækkunar á undanförnum árum í bænum leggja fulltrúar Samfylkingarinnar til að Hafnarfjarðarbær fari í frekara samstarf við óhagnaðardrifin leigufélög um uppbyggingu hagkvæmra leiguíbúða. Þannig verði hagkvæmum íbúðum á markaðnum fjölgað og bæjarfélagið gæti einnig fjölgað félagslegum íbúðum á vegum þess með þessari aðgerð.

Tillaga að afgreiðslu: Tillögunni er vísað til frekari umfjöllunar í bæjarráði.

Meirihlutinn óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:
Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að tryggja íbúum bæjarfélagsins og framtíðar íbúum fjölbreytt búsetuúrræði og góða blöndu húsnæðis í Hafnarfirði. Það má m.a. sjá með því að nefna uppbyggingu Bjargs íbúðafélags á 150 íbúðum í Hamranesi og þau samningsmarkmið sem samþykkt voru fyrir Hraun vestur, Gjótur í bæjarráði þann 17. janúar 2019. Þar koma eftirfarandi markmið m.a. fram:
-Tryggja þarf blandaða byggð, þar sem 15-20% íbúða séu til þeirra sem eru að kaupa/leigja með áherslu á minni og ódýrari íbúðir.
-Lóðarhafar skuldbinda sig að leita eftir samstarfi við félög sem sérhæfa sig í sérstökum búsetaréttaríbúðum og leiguíbúðum.
-Ákveðið hlutfall íbúða verði leiguíbúðir með kaupréttarákvæði, horft verði til þess hóps á leigumarkaði sem ekki kemst í gegnum greiðslumat.

Fulltrúi Samfylkingarinnar óskar bókað:
Uppbygging á íbúðum Bjargs íbúðafélags í Hamranesi er ánæguleg þróun og mikilvægt að það verkefni sé loksins komið í framkvæmd. Samningsmarkmið fyrir Hraun vestur, gjótur gefa góða von um fjölbreytta uppbyggingu á því svæði.
Sú tillaga sem fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram í bæjarstjórn er brýning um að ávallt og enn frekar verði leitað leiða til frekara samstarfs við óhagnaðardrifin leigufélög um uppbyggingu hagkvæmra íbúða í bæjarfélaginu.