Hafnarborg, listaverk
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3573
6. maí, 2021
Annað
Fyrirspurn
Til umræðu.

Svar

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi tillögu:

Bæjarráð samþykkir að setja upp listaverkið á gafli Hafnaborgar ekki seinna en föstudaginn 7. maí og biðji listamennina Libiu Castro og Ólaf Ólafsson afsökunar á því að hafa fjarlægt verkið án samráðs við þau.

Tillagan er felld með atkvæðum meirihluta gegn atkvæðum minnihluta. Fulltrúi Miðflokks situr hjá.


Bæjarfulltrúar meirihluta leggja fram svohljóðandi tillögu:

Bæjarráð leggur til að sótt verði um tilskilin leyfi til byggingarfulltrúa um að umræddu verki verði komið upp frístandandi fyrir utan húsið og verði staðsett á þann hátt að merki Hafnarborgar verði sýnilegt. Umhverfis- og framkvæmdasviði verði falið að útfæra uppsetninguna í samráði við listamennina og forstöðumann Hafnarborgar.

Fundarhlé gert kl. 9:54.
Fundi fram haldið kl. 10:05.

Tillagan er samþykkt með atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Miðflokks. Fulltrúi Samfylkingarinnnar situr hjá við atkvæðagreiðsluna.
Bæjarráð óskar eftir því að byggingafulltrúi vinni strax að málinu.


Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri leggur fram svohljóðandi bókun:

Vegna listaverks í Hafnarborg

Undirrituð hefur lagt fram tillögu að málamiðlun milli Hafnarfjarðarbæjar og listamannanna Ólafs Ólafssonar og Liberu Castro vegna listaverks sem komið hafði verið upp á gafli menningarmiðstöðvarinnar Hafnarborgar og hengt yfir nafn hússins.

Verkið var tekið niður 2. maí þar sem tilskilin leyfi vantaði við uppsetningu þess. Um er að ræða hús í eigu Hafnarfjarðarbæjar en þegar óskað er eftir að setja upp skilti, myndverk eða annað á eða við húsnæði bæjarins þarf slíkt erindi að fara í formlegt ferli og afgreiðslu. Þar gengur það sama yfir alla sem áhuga hafa á slíku. Ekkert slíkt liggur fyrir í þessu máli.
Sýningin ,,Töfrafundur ? áratug síðar“ hefur verið í undirbúningi undanfarin misseri og var opnuð í Hafnarborg 20. mars sl. Undirrituð hefur allan þennan tíma verið meðvituð um uppsetningu hennar og fylgst með áhuga í kringum hana. Því er algjörlega vísað á bug að þótt verk af sýningunni sem sett var upp í leyfisleysi á hús bæjarins hafi verið tekið niður sé um ritskoðun að ræða.
Fullur skilningur er á því að sýning af þessu tagi getur teygt sig út fyrir innanhússrými hennar. Lagt er til að sótt verði um tilskilin leyfi til byggingarfulltrúa um að umræddu verki verði komið upp frístandandi fyrir utan húsið og verði staðsett á þann hátt að merki Hafnarborgar verði sýnilegt. Umhverfis- og framkvæmdasviði yrði falið að útfæra uppsetninguna í samráði við listamennina og forstöðumann Hafnarborgar.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri


Fulltrúi Bæjarlista leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Bæjarlistans geldur varhug við því að kjörnir fulltrúar hafi afskipti af listrænni stjórn menningarstofnana bæjarins og þar með frjálsri tjáningu listafólks á vettvangi þeirra. Undirrituð óskaði eftir gögnum um starfsreglur Hafnarborgar undir málið hér í dag hvað varðar sýningastjórn, listræna stjórn o s frv. til að styrkja málefnalega umræðu í ráðinu. Við þessari beiðni var ekki orðið og er hér með gerð athugasemd við það.
Ég tel það listrænu sjálfstæði Hafnarborgar og tjáningarfrelsi listafólks til vansa að bæjarráð Hafnarfjarðar greiði atkvæði um það hvar megi og megi ekki birta listaverk sem eru hluti virkra sýninga.
Það er afvegaleiðing að mínu mati að málið fjalli um húsakost bæjarins og skrúfur í veggi og myndi ég því ekki taka þátt í atkvæðagreiðslu um það hvort verkið eigi að hanga á vegg eða standa frítt þó svo ég hefði atkvæðisrétt hér í dag.
Þegar upp er staðið hefur inngrip bæjarstjóra um síðustu helgi í raun styrkt skilaboð sýningarinnar sem um ræðir, með því að standa fyrir afskiptum stjórnvalds af lýðræðislegri umræðu á vettvangi listarinnar. Að því leyti hefur þetta mál á sér yfirbragð gjörnings og hvata til umræðu, sem er einmitt tilgangur verksins.
Ljóst má vera að ferlar varðandi það hvernig fyrirspurnum listafólks um nýtingu sýningarhúsnæðis Hafnarborgar er háttað eru óskýrir og þörf á því að skýra þá svo ekki þurfi að koma til samskiptavanda af því tagi sem hér um ræðir á ný. Vinna við þá umgjörð ætti að mínu mati að stuðla að aðskilnaði pólitíkurinnar í bænum og listrænnar tjáningar í menningarstofnunum bæjarins.
Guðlaug Svala Kristjánsdóttir


Fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar í bæjarráði gera alvarlegar athugasemdir við þá ritskoðun sem átti sér stað þegar bæjarstjóri stóð fyrir því að listaverk var tekið niður af vegg Hafnarborgar sl. sunnudag. Verkið, „Töfrafundur ? áratug síðar“ er hluti af sýningu spænsk-íslenska listamannatvíeykisins Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar en þau eru handhafar íslensku myndlistaverðlaunanna 2021 og hafa sett upp sýningar um allan heim. Það að tilskilin leyfi hafi vantað er ekki á rökum byggt enda hafa engin gögn verið lögð fram því til staðfestingar. Það er sorglegt, og með öllu óásættanlegt að bæjarstjóri blandi sér með þessum hætti í listtjáningu og hlýtur að teljast alvarleg aðför að tjáningarfrelsi.
Undirrituð taka ekki þátt í því að greiða atkvæði um með hvaða hætti öðrum listaverkið fari upp heldur eigi það að vera listafólksins að ákveða.
Adda María Jóhannsdóttir
Jón Ingi Hákonarson