Starfsfólk í leikskólum, aukið álag
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1877
13. október, 2021
Annað
Fyrirspurn
5.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 6.október sl. Lagt fram bréf frá verkalýðsfélaginu Hlíf.
Bæjarráð vísar erindinu til fjárhagsáætlunargerðar og til umræðu í fræðsluráði.
Adda María Jóhannsdóttir leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Samfylkingarinnar undrast að kjörnir fulltrúar hafi ekki verið upplýstir um samtöl milli bæjarstjóra og Verkalýðsfélagsins Hlífar vegna ástands á leikskólum bæjarins. Á sama tíma hafa fyrirspurnir frá fulltrúa Samfylkingarinnar í fræðsluráði varðandi mönnun á leikskólum ekki verið settar á dagskrá og í raun verið ósvarað síðan í maí sl., þrátt fyrir nokkrar ítrekanir. Í erindi Verkalýðsfélagsins Hlífar kemur fram að illa gangi að manna skólana, veikindi séu algeng og mörg dæmi séu um að starfsfólk sem hafi starfað árum saman í leikskólum hjá Hafnarfjarðarbæ hafi sagt upp störfum og ráðið sig í sambærileg störf hjá öðrum sveitarfélögum. Í erindinu er bent að mögulegar skýringar séu m.a. óhagstæður samanburður kjara við nágrannasveitarfélögin og vaxandi álag vegna undirmönnunar. Óskað er eftir minnisblaði þar sem þessi atriði eru dregin saman. Fulltrúi Samfylkingarinnar tekur undir þær áhyggjur sem birtast í erindinu og hvetur til þess að allra leiða verði leitað til að finna lausir, með hagsmuni leikskólastarfs að leiðarljósi.
Svar

Til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson og svarar Adda María andsvari.

Þá tekur Friðþjófur Helgi Karlsson til máls.

Einnig tekur til máls Guðlaug Kristjánsdóttir og leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir:

Fyrirspurn í bæjarstjórn v. sumaropnunar leikskóla og stöðu í leikskólamálum.
Fulltrúi Bæjarlistans í fræðsluráði lagði í marsmánuði 2021 fram eftirfarandi fyrirspurnir sem hér með eru ítrekaðar.

Fyrirspurnirnar sem liggja fyrir fræðsluráði eru eftirfarandi:
Í ljósi mjög mikillar og vel rökstuddrar gagnrýni á sumaropnun leikskóla í Hafnarfirði óskar fulltrúi Bæjarlistans í fræðsluráði eftir því að sérstök vinna verði sett af stað til að kortleggja áhrif sumaropnunarinnar og að fræðsluráð fái þær upplýsingar eins fljótt og verða má þegar sumri lýkur. Telur fulltrúinn slíkt nauðsynlegt í ljósi þessarar miklu gagnrýni auk breytinga vegna styttingar vinnuvikunnar hjá starfsfólki leikskólanna og breyttrar fjárhagsstöðu bæjarins í kjölfar covid19. Óskar fulltrúinn eftir því að eftirfarandi atriði verði skoðuð sérstaklega;

?Áhrif sumaropnunar á leikskólabörn og þá sér í lagi þau börn sem þurfa sérstakan stuðning, svo sem hvort börnin fái viðeigandi þjónustu í sumaropnun og hvernig nýting fjölskyldna barna með sérþarfir verður í sumaropnuninni.

?Áhrif sumaropnunar á barnafjölskyldur og upplifun þeirra.

?Áhrif sumaropnunar á starfsfólk leikskólanna þar sem m.a. er fylgst sérstaklega með starfsmannaveltu frá því að þessi ákvörðun var tekin og hvort breyting verði á hlutfalli menntaðra leikskólakennara í starfi hjá bænum.

?Athugun á því hvort sumaropnunin hafi áhrif á viðhald á húsnæði og leikskólalóðir sem venjulega fer fram þegar leikskólar eru lokaðir.

?Athugun á því hvort og þá hvernig sumaropnunin hafi áhrif á aðlögun barna sem eru að byrja á leikskólunum.

?Kortlagning á þeim kostnaði eða sparnaði sem hlýst af sumaropnun leikskólanna.
Við ofangreint má bæta að í gildandi fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 1% „forgangsröðun fjármagns“ á stofnunum á mennta- og lýðheislusviði. Útfærsla á styttingu vinnuviku virðist líka stefna í að kosta meira en yfirlýsingar í kringum kjarasamningagerð gaf til kynna.
Því er jafnframt spurt hvort boðaðar og fyrirsjáanlegar þrengingar í fjármögnun leikskólastigsins hafi áhrif á endurskoðun sumaropnunar í leikskólum bæjarins.

Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson og svarar Guðlaug andsvari.

Til máls öðru sinni tekur Adda María Jóhannsdóttir. Ágúst Bjarni kemur til andsvars og svarar Adda María andsvari.

Þá tekur Jón Ingi Hákonarson til máls. Einnig tekur til máls Guðbjörg Oddný Jónasdóttir. Til andsvars kemur Guðlaug Kristjánsdóttir. Einnig Adda María Jóhannsdóttir. Guðbjörg svarar andsvari og kemur Adda María til andsvars öðru sinni.

Adda María Jóhannsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar harma þá stöðu sem upp er komin á leikskólum Hafnarfjarðar og lýst er sem grafalvarlegu ástandi. Eins og fram kemur í erindi Verkalýðsfélagsins Hlífar, gengur illa að manna skólana, veikindi eru algeng og mörg dæmi um að starfsfólk sem starfað hefur árum saman í leikskólum hjá Hafnarfjarðarbæ hafi sagt upp störfum og ráðið sig í sambærileg störf hjá öðrum sveitarfélögum.
Frá því að erindi Hlífar barst og var tekið fyrir í bæjarráði, eftir ítrekun frá fulltrúa Samfylkingarinnar, hefur borist ályktun frá Félagi leikskólakennara, sem einnig lýsir áhyggjum af stöðu leikskólamála hjá Hafnarfjarðarbæ sem glími við alvarlegan mönnunarvanda.
Þessum erindum ber að taka alvarlega og það er miður að stéttarfélög starfsfólks á leikskólum upplifi að svo hafi ekki verið gert. Í báðum erindum er lýst áhuga á samtali við bæjaryfirvöld þar sem leitað verði lausna og teljum við brýnt að það verði gert hið fyrsta. Fulltrúar Samfylkingarinnar munu fylgja málinu eftir bæði í fræðsluráði og bæjarstjórn og minnum við hér með á fyrirspurnir sem liggja fyrir fræðsluráði frá fulltrúa Samfylkingarinnar um mönnun á leikskólum bæjarins frá því í maí sl.. Samfylkingin hefur ítrekað haldið málefnum leikskóla bæjarins á lofti og mun gera það hér eftir sem hingað til.
Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson

Guðbjörg Oddný kemur að svohljóðandi bókun:

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:

Hafnarfjarðarbær rekur 18 leikskóla þar sem 1500 börn og um 450 starfsmenn starfa á degi hverjum. Í haust voru um 350 ný börn innrituð í leikskólana og voru þeir á þeim tímapunkti flestir fullmannaðir miðað þann fjölda. Vegna ófyrirséðra veikinda starfsmanna á nokkrum leikskólum hafa foreldrar í nokkrum tilvikum verið beðnir um að sækja börn sín fyrr en ella. Slíkt er aðeins gert í neyð og er unnið að því að tryggja afleysingu meðan á veikindum stendur svo ekki þurfi að koma til skerðingar á þjónustu við börn og foreldra.
Undanfarin ár hefur það verið ein helsta áskorun leikskóla í landinu öllu að fá fólk til starfa svo hægt sé að halda úti fullri þjónustu. Sem betur fer hefur staðan í Hafnarfirði verið með betra móti á síðastliðnum árum, ekki síst í samanburði við sum nágrannasveitarfélögin. En nú í haust hafa það einkum verið ófyrirséð veikindi sem hafa sett strik í reikninginn á sama tíma og verið er að koma á styttingu vinnuvikunnar. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa því nú í haust staðið frammi fyrir sama vanda. Til að reyna að koma til móts við þetta lokar t.d. Reykjavíkurborg leikskólum sínum kl. 16:30 vegna mönnunar- og nýliðunarvanda leikskólakennara og ekki hefur reynst hægt að innrita öll börn, ólíkt stöðu okkar hér í Hafnarfirði.
Ýmislegt hefur verið gert til að koma til móts við starfsfólk, foreldra og börn í leikskólum Hafnarfjarðar á undanförnum árum, aðgerðir sem sem byggðar eru á skýrslu starfshóps um bættar starfsaðstæður í leikskólum. Nefna má styttingu vistunartíma barna með hag barna að leiðarljósi og rýmisáætlun sem tók gildi í leikskólum Hafnarfjarðar árið 2018 þar sem aukið var á rými fyrir börn og starfsmenn. Ófaglærðir starfsmenn geta farið á námssamninga í leikskólakennarafræðum og fá leyfi til að stunda nám sitt á launum og afleysing sett inn í staðinn til að efla fagmenntun og faglegt starf skólanna. Nú erum um 30 starfsmenn á samningi sem er aukning milli ára. Einnig hefur starfsfólki fjölgað sem stundar nám í leikskólabrú Borgarholtsskóla.
Lágmarks starfssemi er milli jóla og nýárs, í dimbilviku og í vetrarfríum grunnskóla sem gerir það að verkum að starfsmenn geta tekið frí miðað við fjölda barna á hverjum tíma sem er hluti af því að færa starfsemi leikskólanna nær því sem gerist í grunnskólunum. Á síðasta fundi fræðsluráðs var lögð fram tillaga að sveigjanlegum vistunartíma leikskólabarna sem mun létta álag og mönnum leikskólans og auka möguleika á sveigjanlegum vinnutíma starfsmanna.
Áfram verður unnið að bættum starfsaðstæðum í leikskólum Hafnarfjarðar með aðgerðum sem byggja á skýrslu starfshóps um bættar starfsaðstæður í takt við þróun leikskóla á landinu. Jafnframt er unnið að því að bæta kjör starfsmanna. Hafnarfjörður býr að ómetanlegum mannauð í leikskólum bæjarins. Þar starfar öflugur hópur fólks sem sýnir mikla fagmennsku og ósérhlífni í gefandi og mikilvægu starfi með börnum. Leikskólar bæjarins hafa meðal annars getið sér gott orð fyrir fjölbreytni og snemmtæka íhlutun sem lögð er mikil áhersla á. Við erum stolt af því frábæra starfi sem unnið er í leikskólunum og munum nú sem endranær leggja okkur fram við að gera vel við þá sem þar starfa.