Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2021 og 2022-2024
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1858
25. nóvember, 2020
Annað
‹ 13
14
Fyrirspurn
1.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 19.nóvember sl. Lögð fram fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans fyrir 2021 og langtímaáætlun fyrir 2022-2024.
Lagðar fram gjaldskrár Hafnarfjarðarkaupstaðar 2021.
Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs mætir til fundarins.
Bæjarráð vísar fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun og gjaldskrá Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2021 og langtímaáætlun fyrir 2022-2024 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Svar

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir.

Einnig Friðþjófur Helgi Karlsson og leggur hann jafnframt svohljóðandi tillögur við fjárhagsáætlun:

Tillögur Samfylkingarinnar sem lagðar eru fram við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar 2021 í bæjarstjórn Hafnarfjarðar

Sveitarfélögin eru stór í efnahagslegu samhengi á Íslandi. Allt sem við gerum hefur áhrif út í samfélagið. Við þurfum að gæta vel að þeim aðgerðum sem farið er í. Niðurskurður í rekstri getur sem dæmi komið í bakið á okkur í framtíðinni og birst okkur í ófyrirséðum félagslegum og fjárhagslegum vanda síðar.

Það verður stóra verkefni okkar á næstu árum, ekki bara hjá sveitarfélögum eða okkur hér á Íslandi, heldur út um allan heim að fjárfesta í kerfisbreytingum á vinnumarkaði sem gera okkur kleift að flytja fólk úr störfum þar sem tæknin getur sinnt verkinu yfir í greinar sem þarfnast mannlegrar nándar.
Svona umbreyting kostar fjárfestingu í lausnum, nýjum ferlum og kerfum. Það er mikilvægt að nýta tímann í núverandi niðursveiflu í að viðhalda þjónustustigi samhliða því að fjárfesta í nýrri þekkingu og nýjum lausnum í mennta-, félags- og velferðarmálum. Að fjárfesta ekki síður og kannski miklu frekar í fólki en steinsteypu.

Það er skynsamlegast fyrir okkur í yfirstandandi efnahagsþrengingum að stórauka fjárframlög til nýsköpunar, mennta-, félags og velferðarmála og skapandi greina.

Fjölga þarf störfum með beinum hætti, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Hvort tveggja er nauðsynlegt ? í atvinnukreppu er ekki tími til að karpa um hlutfallslegt vægi opinberrar þjónustu og einkareksturs. Nú er lag að ráðast í átak gegn undirmönnun í velferðarþjónustu og menntastofnunum en ljóst er að við núverandi aðstæður myndu niðurskurður og uppsagnir hjá sveitarfélögum dýpka og lengja kreppuna. Því er algjörlega nauðsynlegt að fjölga störfum í almannaþjónustu.

1) Lagt er til að ráðið verði í 50 - 100% starf forvarnarfulltrúa.
Mikilvægt er að ráðinn verði forvarnarfulltrúi í 50 - 100% starf sem heyra myndi undir íþrótta- og tómstundafulltrúa. Það er ljóst að ungt fólk hefur upplifað talsverða vanlíðan og erfiðleika í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirunnar og einhver hópur hefur flosnað upp úr námi. Því er mikilvægt að setja inn aukið fé til að styðja við ungt fólk á þessum erfiðu tímum og koma í veg fyrir að það leiti í auknum mæli í neyslu og annan óheilbrigðan lífsstíl. Öflugar forvarnir eru afar mikilvægar til að hægt sé að takast á við eftirköst faraldursins og draga úr þeim skaða sem hann getur valdið hjá ungu fólki í samfélaginu.
Vísa inn í fræðsluráð, íþrótta- og tómstundanefnd og bæjarráð

2) Efla starfsemi Ungmennahúsana í Hafnarfirði
Fjölga þarf stöðugildum og rekstrarfé til Hamarsins og Músík og Mótor svo efla megi starf þeirra enn frekar. Það er mikilvægt að ungu fólki, 16 ? 25 ára sé boðið upp á fjölbreytta þjónustu ekki hvað síst á þeim skrítnu og erfiðu tímum sem við lifum nú á. Það eru vísbendingar um verri andlega líðan þessa aldurshóps og meiri einangrun einstaklinga innan hans sem kalla á tafarlausar aðgerðir. Ungmennahúsin gegna mismunandi hlutverki í tómstundastarfi hafnfirskra ungmenna en hafa sameiginleg markmið um að stuðla að menningu og bættri þjónustu við ungmennin í gegnum þau verkefni sem þau taka þátt í. Hlutverk ungmennahúsanna er tvíþætt, annarsvegar að bjóða ungmennum upp á tómstundir sem hafa forvarnar-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Hins vegar er hlutverk þeirra að bjóða upp á aðstöðu til afþreyingar og samveru með jafnöldrum í öruggu umhverfi. Áhersla er lögð á fjölbreytileikann og að allir upplifi sig velkomna.
Við leggjum því til að fjölgað verði um 2 stöðugildi í Hamrinum og 1 stöðugildi í Músík og Mótor á næsta fjárhagsári.

Vísa inn í fræðsluráð, íþrótta- og tómstundanefnd og bæjarráð

3) Þróunar- og nýsköpunarsjóður leik- og grunnskóla.

Nýsköpunar- og þróunastarf er mikilvægur hluti skólastarfs. Við þær aðstæður sem uppi eru í samfélaginu nú um stundir þá er afar mikilvægt að hvetja til þess að efla faglegt starf í skólum svo sem þróun kennsluaðferða og tækni sem hægt er að nota til hagsbóta fyrir nemendur í skólum bæjarins. Áætlað er að leggja 23 milljónir í þennan sjóð á næsta ári. Það er langt frá því að vera nóg við núverandi aðstæður. Því leggjum við til að lagðar verði 50 milljónir til viðbótar í þróunar- og nýsköpunarsjóð leik- og grunnskóla sem bæði opinberir aðilar og einkaðilar geta sótt fjármagn í til að þróa nýjar lausnir og aðferðir til hagsbóta fyrir hafnfirska nemendur.
Vísa inn í fræðsluráð og bæjarráð

4) Uppbygging leikskóla í Öldutúnsskólahverfi

Við fulltrúar Samfylkingarinnar leggjum til að hafist verði handa án tafa við frekari uppbyggingu á leikskóla í skólahverfi Öldutúnsskóla.

Það er fyrirséð að með fjölgun íbúa í hverfinu, breytinga á aldurssamsetningu vegna endurnýjunar í hverfinu sem og með frekari áætlunum um lækkun á inntökualdri muni þörfin í hverfinu síst fara minnkandi og því mikilvægt að horfa til framtíðar. Ráðist verði þegar á næsta ári í að byggja upp þessa mikilvægu grunnþjónustu innan hverfisins með áherslu á að samnýta grunnstoðir leik- og grunnskóla og draga þannig úr aðgreiningu milli skólastiga.
Vísa inn í fræðsluráð og bæjarráð

5) Efla starf Brúarinnar með fjölgun stöðugilda.
Fjölga þarf stöðugildum og efla enn frekar starf Brúarinnar. Það er ljóst að þverfaglegt starf í grunnskólum bæjarins hefur aldrei verið eins mikilvægt og nú um stundir. Í kjölfar farsóttarinnar og þeirra efnahags- og félagslegu áhrifa sem hún hefur haft verður mikil þörf á að mæta nemendum í leik- og grunnskólum með markvissum hætti með snemmtækri íhlutun. Því er það tillaga okkar að í það minnsta tveimur stöðugildum verði bætt við til að efla þetta mikilvæga starf strax á næsta ári.

Vísa inn í fjölskylduráð, fræðsluráð og bæjarráð

6) Barnavernd fjölga stöðugildum til að mæta auknu álagi
Það er ljóst að brýnt er að fjölga stöðugildum í barnavernd vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur þegar haft á samfélag okkar. Einnig er ljóst að þörfin á aðkomu barnaverndar verður ekki minni á komandi ári. Það er ekki viturlegt að láta okkar góða fagfólk sem við eigum hér í bænum á þessu sviði hlaupa bara hraðar og hraðar, það mun koma niður á þjónustunni til lengri tíma litið og leiða til kulnunar starfsfólks. Til að takast á við þau verkefni sem bíða okkar hér í bænum á næsta ári þá er að okkar mati nauðsynlegt að fjölga stöðugildum í barnavernd að minnsta kosti um tvö á næsta ári.
Vísa inn í fjölskylduráð og bæjarráð

7) Nýsköpun í velferðarþjónustu
Komið verði á laggirnar þróunarsjóði sem ýtir undir nýsköpun í velferðarþjónustu. Mikilvægt er að fjárfesta í þekkingu í þeirri þjónustu sem krefst mannlegrar nándar. Samdóma álit hagfræðinga um allan heim er að efla þurfi velferðarþjónustu og hvetja til nýsköpunar hvort sem um er ræða verkefni, lausnir eða hugmyndir opinberra eða einkaaðila. Við leggjum því til að settar verði 50 milljónir í sjóð til efla velferðarþjónustu í sveitarfélaginu.
Vísa inn í fjölskylduráð og bæjarráð

8) Þjónusta við aldraða
Gert er ráð fyrir minna fjármagni inn í þennan þjónustuþátt á næsta ári þegar við ættum einmitt að vera að efla þjónustuna eða í það minnsta að halda í horfinu á milli ára. Það er óásættanlegt að gert sé ráð fyrir 6% samdrætti í þjónustu við aldraða í sveitarfélaginu.
Við leggjum til að horfið verði frá því og sett fram aukning sem nemur að minnsta kosti 3% við þennan lið í fjárhagsáætluninnni. Eldri íbúar bæjarins hafa margir hverjir búið við mikla einangrun undanfarin misseri. Það er því mikilvæg fyrir andlega og líkamlega heilsu þessa hóps að efla félagsstarf þeirra sem og aðra þjónustu við hann.
Vísa inn í fjölskylduráð og bæjarráð

9) Fjárfestum í menningu og listum
Covid´19 ástandið hefur þýtt algjöran tekjubrest hjá listafólki í samfélagi okkar. Því er mikilvægt að bæta fjármagni í þennan málflokk og fjárfesta þar til framtíðar. Sérstaklega er mikilvæg að styðja við ungt hafnfirskt listafólk. Við leggjum til að settur verði upp vettvangur fyrir ungt fólk til listsköpunar og sýninga. Einnig að það verði settur á laggirnar sérstakur 20 milljón króna sjóður sem ætlaður er til að styðja við listafólk í bænum með sérstaka áherslu á ungt listafólk.
Vísa inn í bæjarráði og menningar- og ferðamálanefnd

10) Umhverfis- og auðlindastefna Hafnarfjarðar ? aðgerðir í loftslagsmálum
Settar verði 50 milljónir í að fylgja eftir aðgerðaráætlun í umhverfismálum sem er hluti af umhverfis- og auðlindastefnu Hafnarfjarðar. Svo hægt verði að sækja kröftuglega fram á hennar grunni. Fjármagn verði fengið með því að draga úr fjármagni til LED-lampavæðingar ljósastaura og til kaupa á jólalýsingu.

Vísa inn í Umhverfis- og framkvæmdaráð og bæjarráð

11) Grænn fjárfestingarsjóður ? nýsköpun í umhverfismálum
Settar verði 50 milljónir í grænan fjárfestingasjóð. Í þann sjóð geti bæði opinberir aðilar sem og einkaaðilar sótt til að efla nýsköpun í umhverfismálum í sveitarfélaginu.
Fjármagn verði fengið með því að draga úr fjármagni til LED-lampavæðingar ljósastaura og til kaupa á jólalýsingu.
Vísa inn í Umhverfis- og framkvæmdaráð og bæjarráð

12) Ráðast verði í framkvæmdir á Óla Run túni
Uppbygging á grænum svæðum og útivistarsvæðum í bæjarlandinu, eykur lífsgæði og stuðlar að meiri útivist og samveru fjölskyldunnar. Sem aftur leiðir til betri andlegrar- og líkamlegrar heilsu. Mikilvæg fjárfesting til framtíðar sem mun borga sig margfalt þegar til lengri tíma er litið.

Vísa inn í Umhverfis- og framkvæmdaráð og bæjarráð.

13) Náttúruperlur í umhverfi okkar og þróun á útivistarsvæðum í Hafnarfirði

Helgafell, kennileiti og skilti

Það er mikilvægt fyrir Hafnarfjörð að vinna hratt og vel að betri og öruggari aðstæðum á svæðinu í kring um Helgafell.

Á gönguleiðina upp á fellið þyrfti að setja kennileiti skilti eða eitthvað slíkt sem minnkar líkur á að fólk villist af leið sem gerist þar mjög reglulega og einnig flýtir það fyrir ef eitthvað kemur upp á ef sá sem lendir í vandræðum getur bent á kennileiti sem flýta fyrir því að hægt sé að staðsetja viðkomandi. Það vantar sárlega greinagóðar upplýsingar um svæðið í kring um Helgafell, að þar séu gefnar upp upplýsingar um gönguleiðir vegalengdir ofl. og farið yfir sögu og örnefni svæðisins. Umferðin um svæðið er mikil og þétt og við eigum að gera það sem í okkar valdi stendur til að auka á ánægju þeirra sem þar fara um og tryggja öryggi eftir því sem unnt er.
Hvaleyrarvatn og umhverfi þess.

Fara þarf í hugmyndavinnu að því að svæðið verði enn meiri útivistarparadís en hún er í dag það vantar bílastæði, hægt væri að fá skátana með okkur í lið að búa þar til allsherjar ævintýra og útivistarsvæði með baðaðstöðu útisturtum, góðri salernisaðstöðu, mun fleiri bekkjum og borðum fyrir grill og nesti yfirbyggðu grillskýli og svo mætti lengi telja. Skíða og sleðabekka við við Stórhöfða yrði svo frábær viðbót við þetta skemmtilega svæði.

Leiksvæði fyrir þá sem stunda vetraríþróttir í bænum eða upplandinu
Mikilvægt er að fara vinnu við að skoða aðstöðu í bænum fyrir skíða og brettafólk og svo auðvitað fyrir þá sem vilja renna sér á sleðum og þotum.
Víðistaðatún væri kjörinn vettvangur fyrir þetta en einnig mætti hugsa sér að útbúa slíkt svæði á Holtinu við nýju göngubrúna yfir á Ásvelli, slíkt svæði væri þá bæði í göngufæri við Ásvellina, Holtið og jafnvel Suðurbæ að hluta. Skoða þarf möguleika á að flytja snjó og byggja jafnvel upp rampa og fleira þegar veður býður upp á það.

Á skipulagi fyrir svæðið við Seldal og Stórhöfða er skíðabrekka. Skoða mætti vel möguleika á að fara nánari skipulagsvinnu á því svæði á næsta ári.

Lagt er til settar verði 50 milljónir í undirbúning og framkvæmdir í tengslum við ofangreindar tillögur um náttúruperlur í umhverfi okkar og þróun á útivistarsvæðum í Hafnarfirði og verði þær teknar af liðnum uppbygging íþrótta- og útivistarsvæða og/eða af liðnum endurnýjun á perum í ljósastaurum bæjarins og jólalýsingu hans.

Vísað inn í Umhverfis- og framkvæmdaráð og bæjarráð.

14) Atvinnumál
Öflugt atvinnulíf er undirstaða hvers samfélags. Mikilvægt er að til sé skýr og markmiðsbundin stefna í atvinnumálum í hverju sveitarfélagi. Því miður er slík stefna ekki til hér í Hafnarfirði í dag. Afar mikilvægt er að úr því verði bætt hið fyrsta.
Öllum má ljóst vera að það er mikilvægt að sveitarfélagið kosti kapps um það að skapa hagkvæm skilyrði fyrir atvinnulífið og fyrirtækin í bænum. Til að tryggja skilvirka aðkomu Hafnarfjarðarbæjar að almennum og sértækum verkefnum er nauðsynlegt að móta skýra stefnu í atvinnumálum. Hafnarfjarðarbær á að leitast við að skapa kjörumhverfi þar sem einstaklingar og fyrirtæki sjá tækifæri í því að stofna til atvinnurekstrar. Bæjaryfirvöld eiga einnig að gera sér far um það að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að atvinnulíf í Hafnarfirði byggi á fjölbreytni, háu þekkingarstigi, sköpunarkrafti, öflugum útflutningi og verðmætasköpun.

Við leggjum það því til að settar verði 15 milljónir í vinnu við gerð á metnaðarfullri atvinnustefnu og stefnumörkun á hennar grunni fyrir Hafnarfjörð á næsta fjárhagsári.
Vísa inn í bæjarráð.

15) Lækkun á launum bæjarfulltrúa

Að lokum leggjum við til að laun bæjarfulltrúa verði lækkuð í það sem þau voru áður en til hækkunar þeirra kom í vor. Með því sparast fjármunir sem nýtast myndu vel í mörg mikilvæg verkefni í samfélaginu.
Vísa inn í bæjarráð

Við óskum eftir því að tillögunum verði vísað inni í viðeigandi ráð og/eða nefndir og fái þar góða og faglega umfjöllun.

Til andsvars kemur Kristín María Thoroddsen og svarar Friðþjófur Helgi andsvari.

Þá tekur Guðlaug Kristjánsdóttir til máls. Friðþjófur Helgi kemur til andsvars.

Einnig tekur Sigurður Þ. Ragnarsson til máls og leggur fram svohljóaðndi tillögur við fjárhagsáætlun:

Tillaga frá bæjarfulltrúa Miðflokksins við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021.
Miðflokkurinn í Hafnarfirði telur mikilvægt að gæta fyllsta aðhalds í útgjöldum bæjarins í ljósi tekjufalls sem orðið hefur hjá sveitarfélaginu í fordæmalausu ástandi. Engu að síður leggur Miðflokkurinn til að veitt sé 10 milljónum króna til hreinsunar gatna til að draga úr svifryki í andrúmslofti að vetrarlagi í bænum.

Greinargerð:
Einn mesti orsakavaldur svifriks er slit sem bílar valda á gatnakerfinu ekki síst bílar á nagladekkjum. Á köldum dögum og þegar vindur er hægur mælist styrkur svifryks of oft yfir heilsuverndarmörkum. Við því verður að bregðast. Með átaki við þrif gatna með sérhæfðum götuþvottasóparabílum má draga verulega úr svifryki í andrúmslofti og fækka dögum þar sem svifryk fer yfir heilsuverndarmörk, íbúum til heilla.
Er lagt til að málinu verði vísað til umhverfis og framkvæmdaráðs til ákvörðunar.

Þá tekur Jón Ingi Hákonarson til máls og leggur fram svohljóðandi tillögur við fjárhagsáætlun:

Tillögur Viðreisnar
1. Bæta við stöðugildi sálfræðings á fræðslusviði/Brúin (fræðslusvið)
2. Auka fé til Hamarsisns ungmennhúss (fræðslusvið)
3. Setja aukna áherslu á að vinna gegn félagslegri einangrun eldri borgara (fjölskyldusvið)
4. Hraða snjallvæðingu bæjarins (stjornsýslusvið)
5. Fjölga stöðugildum hjá Barnavernd (fjölskylduráð)
6. Leggja fram nákvæma áætlun um hvenig söluandvirði hlutar Hafnarfjarðar verði ráðstafað (stjórnsýslusvið)
7. Að auka starfstækifærum í gegnum Áfram verkefnið. (fjölskyldusvið)
8. Að fara í umfangsmiklar aðgerðir til að fjölga og laga göngu/hlaupa og hjólastígum (Umhverfis og framkvæmdaráð)
9. Að auka lóðaframboð (skipulagsráð)

Einnig tekur Friðþjófur Helgi til máls öðru sinni.

Forseti ber næst upp tillögu um að framkomnum tillögum að breytingum á fjárhagsáætlun verði vísað til áframhaldandi vinnu við fjárhagsáætlun í þeim ráðum sem þar er vísað til og þær eiga heima. Er það samþykkt samhljóða.

Forseti leggur þá næst til að tillaga að fjárhagsáætlun 2021 og 2022 til 2024 verði vísað til annarrar umræðu í bæjarstjórn sem fari fram 16. desember nk. Er tillagan samþykkt samhljóða.