Hjallabraut, deiliskipulagsbreyting
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1846
29. apríl, 2020
Annað
Fyrirspurn
5.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 21.apríl sl. Á fundi bæjarstjórnar þann 5. feb. s.l. var Hjallabraut, deiliskipulagsbreyting vísað aftur til skipulags- og byggingarráðs. Lögð var fram breytt tillaga sem gerir ráð fyrir fækkun á húsum. Lagður fram endurgerður deiliskipulagsuppdráttur Bj.snæ arkitekta dags. 02.04.2020 sem tekur mið af fækkun húsa og framkomnum athugasemdum.
Skipulags- og byggingarráð samþykkir breytta tillögu að deiliskipulagi og að auglýsa hana í samræmi við 41.gr. skipulagslaga og vísar erindinu til bæjarstjórnar.
Fulltrúi Samfylkingarinnar bendir á að deiliskipulag fyrir svæðið hafi fengið góða og faglega umfjöllun í ráðinu. Á fundi ráðsins þann 17. desember, 2019 var samþykkt tillaga að deiliskipulagi lágreistrar byggðar. Það var loks tekið fyrir í bæjarstjórn í febrúar, en þá var því vísað aftur til ráðsins. Nú liggur fyrir alveg ný tillaga með umtalsverðum breytingum frá annarri arkitektaskrifstofu en gerði upphaflegu tillöguna. Engar ástæður eru tilgreindar fyrir þessum breytingum sem hafa verið unnar með ærnum tilkostnaði. Því miður er þetta enn eitt dæmið hjá meirihlutanum um hringlandann í skipulagsmálum og hvernig málum er þvælt fram og til baka innan kerfisins með tilheyrandi kostnaði sem kemur niður á áformum um uppbygginu íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra bóka eftirfarandi:
Því miður kemur bókun fulltrúa Samfylkingarinnar ekki á óvart. Sá flokkur virðist ítrekað - og viljandi - gera tilraun til að leggja stein í götu uppbyggingar íbúðahúsnæðis í bæjarfélaginu með því að gera flókið skipulagsferli tortryggilegt í augum íbúa. Það er ekkert óeðlilegt að mál taki einhverjum breytingum í ferlinu. Að öðru leyti telur meirihlutinn rétt að benda á að góður gangur er almennt í skipulagsmálum í Hafnarfirði. Líkt og fram kemur í fyrri bókunum á fundinum er kröftug og skynsamleg uppbygging framundan hér í bæ; bæði á nýbyggingarsvæðum og þéttingarreitum eins og hér um ræðir. Í þessu máli stendur ekkert annað til en að setja deiliskipulagið í auglýsingu og kynna það formlega fyrir íbúum bæjarfélagins.
Fulltrúi Samfylkingarinnar bókar eftirfarandi:
Samfylkingin í Hafnarfirði hefur ávallt sett í forgang kröftuga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði eins og dæmin sanna. Hér er hins vegar verið að taka til afgreiðslu tillögu á svæði sem þegar hefur fengið umfjöllun og afgreiðslu úr ráðinu. Það er staðreynd að það mun seinka uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á þessu svæði. Þetta er því miður ekki eina dæmið um hringlandaháttinn hjá meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í skipulags- og byggingarmálum í Hafnarfirði.
Svar

Til máls tekur Ingi Tómasson.

Einnig tekur Adda María Jóhannsdóttir til máls. Ingi Tómasson kemur til andsvars. Adda María svarar andsvari. Einnig kemur Rósa Guðbjartsdóttir til andsvars sem Adda María svarar.

Þá tekur Guðlaug Kristjánsdóttir til máls. til andsvars kemur Ingi Tómasson. Guðlaug svarar andsvari.

Einnig tekur til máls Friðþjófur Helgi Karlsson.

Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs með 9 atkvæðum en þau Adda María og Friðþjófur Helgi sitja hjá.

Guðlaug Kristjánsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

Bæjarfulltrúar Bæjarlistans, Viðreisnar og Samfylkingar leggja áherslu á að skoðaðir verði möguleikar á annars konar innkeyrslu og aðkomu inn í vistgötuna við vinnu tillögunnar á næstu stigum. Óformlegar athugasemdir hafa þegar borist hvað þetta varðar og viðbúið að þeim verði fylgt eftir með formlegum hætti í framhaldinu. Þarna er frístundastarf barna og umferð gangandi sem þarf að taka tillit til.
Undir rita:
Guðlaug Svala Kristjánsdóttir
Jón Ingi Hákonarson
Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson

Fundarhlé kl. 15:55. Fundi framhaldið kl. 16:01.

Ingi Tómasson kemur að svohljóðandi bókun:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks taka undir framlagða bókun minnihlutans.