Hjallabraut, deiliskipulagsbreyting
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og byggingarráð nr. 718
20. október, 2020
Annað
Fyrirspurn
Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar frá 30.6.2020 er varða vinnu við tillögur að deiliskipulagi Hjallabrautar. 1. Hver er kostnaðurinn við gerð tveggja tillagna að deiliskipulagi fyrir Hjallabrautina? 2. Hver er áætlaður heildarkostnaðurinn vegna þeirra vinnu? 3. Áður en vinna við deiliskipulagið hófst hver var kostnaðaráætlunin vegna þessarar vinnu? Óskað er eftir sundurliðun kostnaðar með tilliti til aðkeyptrar þjónustu.
Svar

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi: Formleg vinna við aðal- og deiliskipulagsbreytingu hófst með samþykkt skipulags- og byggingarráðs þann 13. desember 2016 um skipulagsbreytingar við Hjallabraut. Í upphafi og allan feril málsins hafa allir fulltrúar í skipulags- og byggingarráði verið samstíga um að vanda til verka og skila tillögu þar sem íbúar gætu glöggvað sig vel á fyrirhuguðum byggingum á svæðinu.
Eins og glögglega kemur fram í minnisblaði skipulagsfulltrúa hefur skipulagsgerðin tekið nokkrum breytingum á tímabilinu, m.a. var bætt við bílastæðum við hvert hús ásamt nokkrum öðrum breytingum á þeim tíma, hætt við færslu Hjallabrautar og að síðustu var ákveðið að fækka húsum á skipulagssvæðinu og setja inn þrjú einbýlishús í staðin.
Kostnaður við verkið endurspeglar mikilvægi vandaðrar vinnu á viðkvæmu svæði þar sem deiliskipulagstillagan er tekin lengra en venja er til svo íbúar Hafnarfjarðar geti áttað sig á umfangi tillögunnar. Umframkostnaður vegna vinnu við aðal- og deiliskipulag við Hjallabraut mun skila sér í sölu lóða á svæðinu.

Fulltrúi Samfylkingar bókar: Í framlögðum svörum við fyrir fyrirspurn Samfylkingarinnar um kostnað við gerð tveggja deiliskipulagstillagna vegna Hjallabrautar kemur fram að heildarkostnaðurinn var 20.929.357.- kr.

Kostnaðurinn skiptist þannig að vinna við fyrri tillöguna er 17.477.057.- kr. sem var samþykkt í skipulags- og byggingaráði, en var vísað til baka úr bæjarstjórn án ástæðu. Vegna vinnu við gerð nýrrar tillögu þá bættist við kostnaður að upphæð 3.452.300.- kr. Þetta er verulegur aukakostnaður sem hefði verði hægt að spara með því að samþykkja fyrri tillöguna og koma þannig í veg fyrir umtalsverðar tafir við uppbygginu á svæðinu.

Þá kemur einnig fram að kostnaðaráætlun var 9.912.400.- kr. Þetta þýðir að kostnaður varð tvöfalt hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta er hrikaleg framúrkeyrsla sem meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks ber ábyrgð á. Og enn eitt dæmið um hringlandann í skipulagsmálum bæjarins. Þessa framúrkeyrslu þarf að skoða nánar og ég óska eftir að það verði gert.

Hlé gert á fundi.
Fundi framhaldið.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
Vinna við gerð tveggja deiliskipulagstillagna vegna Hjallabrautar hefur ávallt farið fram og verið samþykkt á fundum skipulags- og byggingaráðs. Meirihluti skipulags- og byggingarráðs hefur alla tíð verið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé og hafi verið að vanda vel til verka, enda er hér um að ræða svæði sem bæði er í nálægð við gróin íbúðahverfi og eitt af fallegustu útivistarsvæðum bæjarfélagsins. Góð tillaga liggur nú fyrir eftir ítarlega og mikilvæga vinnu, þar sem allir þættir máls voru kannaðir, og hefur alla tíð verið uppi á borðum og unnin með vitund og vitneskju allra þeirra sem sitja í skipulags- og byggingaráði. Ánægjulegt verður að sjá húsnæði rísa á þessu fallega þéttingarsvæði.