Hraun vestur, gjótur, deiliskipulag
Síðast Frestað á fundi fyrir 1 ári síðan.
Skipulags- og byggingarráð nr. 718
20. október, 2020
Annað
Fyrirspurn
Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar varðandi samanburð á nýsamþykktu deiliskipulagi og rammaskipulagi.
Svar

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi: Rammaskipulag fyrir Hraun vestur - Gjótur, reiti 1.1 og 1.4 gerir ráð fyrir að 50% byggingarmagns fari undir verslun og þjónustu, 15% fari undir aðra starfsemi og 35% undir íbúðir. Í ljósi breyttra þarfa fyrir húsnæði undir skrifstofur og þjónustu og verulegri þörf á uppbyggingu íbúða er brugðist við því með fjölgun íbúða á reitnum. Einnig er athygli vakin á því að skipulagssvæðið er mun stærra en rammaskipulagið gerir ráð fyrir á reitum 1.1. og 1.4. Deiliskipulagstillagan miðar að því að skapa þétt og skjólríkt borgarhverfi með sérstakri áhersla á inngarða sem njóta sólar á meðan skuggasvæðin eru nýtt fyrir bílastæði. Skuggavarpsmyndir í deiliskipulagstillögunni gefa ágætis mynd af þessu. Þá er bent á að rammaskipulag er stefnumótandi framtíðarsýn um heildaryfirbragð svæða. Í því er gerð grein fyrir öllum helstu efnistökum við uppbyggingu þróunarreita sem síðan verða útfærð nánar í deiliskipulagi eða eins og segir í inngangi rammaskipulagsins „Rammaskipulag þetta hefur ekki lögformlegt gildi. Hlutverk rammaskipulags er að gefa leiðbeinandi heildarsýn um þróun skipulagssvæðisins. Í kjölfar samþykktar þess verða afmarkaðir áfangar deiliskipulagðir. Í deiliskipulagi eru endanlegar útfærslur, landnýting og byggingarmagn lögformlega ákvarðaðar.“ Meirihluti skipulags- og byggingarráðs ítrekar þá skoðun sína að í öllum megin atriðum byggir deiliskipulagstillagan á sambærilegri hugmyndafræði og sett er fram í rammaskipulaginu sem samþykkt var í skipulags- og byggingarráði þann 15. maí 2018.

Fulltrúi Samfylkingarinnar þakkar framlögð svör um samanburð deiliskipulags Hraun vestur, Gjótur og rammaskipulags sama svæðis. Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur haldið því fram að deiliskipulagstillögurnar séu í samræmi við samþykkt rammaskipulag. En tölurnar sýna að svo er alls ekki. Mikill munur er á byggingarmagni á kostnað verslunar, þjónustu og gæðum byggðar.

Fulltrúar Viðreisnar og Bæjarlistans bóka eftirfarandi:
Meirihlutinn vitnar í bókun sinni í rammaskipulag fyrir Hraunin og telur að það deiliskipulag sem hér er til umfjöllunar sé í góðu samræmi við rammaskipulagið. Máltilfinning þorra allra landsmanna er sú að hugtök á borð við „innan marka“ og „í góðu samræmi við“ geti falið í sér 5-15% skekkjumörk. Hér er byggingarmagn aukið um 62% frá fyrri hugmyndum sem getur aldrei talist “innan marka? heldur er um gjörbyltingu að ræða.

Fulltrúi Viðreisnar bókar:
Fulltrúi Viðreisnar lagði fram fyrirspurn fyrir fundinn þar sem óskað var eftir upplýsingum um hversu margar sólarstundir inngarðar hverfisins myndu njóta þann 1. maí ár hvers. Hann fékk þau svör að fyrirspurninni yrði ekki svarað með þeim rökum að málið væri ekki á dagskrá. Nú örfáum dögum síðar er málið tekið á dagskrá og lögð er fram bókun sem tiltekur sérstaklega sólríka inngarða. Fulltrúi Viðreisnar fagnar þessum óvæntu sinnaskiptum og ítrekar fyrirspurn sína: hversu margra sólarstunda munu íbúar njóta í hverfinu njóta í inngörðum þann 1. maí hvers árs? Það er rétt að benda á að í uppfærslu Aðalskipulags Reykjavíkur sem er nú í kynningarferli er sett fram það viðmið að inngarðar njóti sólar í 5 klst þann 1. maí ár hvert og er það byggt á viðmiðum frá Noregi og Svíþjóð.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi: Deiliskipulagstillaga fyrir Gjótur ? Hraun vestur hefur verið til umfjöllunar í skipulags- og byggingarráði frá vormánuðum 2019. Þann 7. maí 2019 var kynnt í skipulags- og byggingarráði tillaga að deiliskipulagi, á sama fundi var kynntur samanburður á rammaskipulagi Hraun vestur og fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu en hæð húsa samkvæmt þeirri tillögu var 10-11 hæðir. Þann 21. maí 2019 var kynnt tillaga í ráðinu þar sem hámarkshæð var komin í 9 hæðir. Engar athugasemdir komu fram varðandi byggingarmagn, fjölgun íbúða eða annað í deiliskipulagstillögunni. Raunin er sú að allir í skipulags- og byggingarráði samþykktu tillöguna. Deiliskipulagstillagan var síðan samþykkt í bæjarstjórn þann 29. maí 2019 þar sem tveir greiddu atkvæði á móti. Frá þeim tíma hefur tillagan aftur komi fyrir skipulags- og byggingarráð og bæjarstjórn, eina sem breyst hefur frá því að tillagan naut stuðnings allra í skipulags- og byggingarráði og flestra í bæjarstjórn er að hæð húsa hefur lækkað úr 9 hæðum í 8 hæðir.