Hraun vestur, aðalskipulagsbreyting
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1855
14. október, 2020
Annað
Fyrirspurn
1.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 9.október sl. Lagt fram á ný bréf Skipulagsstofnunar frá 18.09.2020 ásamt uppfærðum gögnum aðalskipulagsbreytingarinnar.
Meirihluti skipulags- og byggingarráðs samþykkir framlögð gögn með vísan til 1. mgr. 36. greinar skipulagslaga og vísar þeim til staðfestingar í bæjarstjórn. Fulltrúar Samfylkingar og Bæjarlistans eru mótfallnir tillögunni.
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlistans bóka eftirfarandi:
Í framlögðum greinargerðum við aðal- og deiliskipulags Hraun vestur, Gjótur er verið að bregðast við alvarlegum ábendingum Skipulagsstofnunnar varðandi skipulagið. Enn og aftur er aðal- og deiliskipulag svæðisins til umfjöllunar í ráðinu og ekki í fyrsta skipti sem Skipulagsstofnun gerir athugasemdir við skipulag hverfisins.
Óvönduð og ólýðræðisleg vinnubrögð meirihlutans hafa leitt til þess að uppbygging á Hraununum hefur tafist fram úr hófi og eru því miður ekki eina dæmið um hæga uppbyggingu í Hafnarfirði. Engin framtíðarsýn liggur fyrir um áframhaldandi uppbyggingu eða ásýnd hverfsins, því samþykktu rammaskipulagi sem unnið var í samráði við og kynnt íbúum er ekki fylgt. Nú sem fyrr berast engin svör frá meirihlutanum hvort næstu reitir innan rammaskipulags Hrauna muni fylgja rammaskipulaginu eða hvort þetta deiliskipulag verði fjölfaldað um öll hraunin með óhóflegu byggingarmagni, bílastæðum og án grænna svæða eða nauðsynlegri grunnþjónustu.
Hér er verið að taka mikilvæg skref til uppbyggingar íbúðar-, verslunar- og þjónustuhúsnæðis og mikilvægt að vel sé vandað til verka svo ekki verði frekari tafir á uppbyggingu í Hafnarfirði.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
Hér er verið að bregðast við minniháttar leiðbeiningum Skipulagsstofnunar. Unnið hefur verið ötullega að því að skipuleggja nýbyggingarsvæði ásamt þéttingarreitum á kjörtímabilinu. Nú þegar rúm tvö ár eru liðin af kjörtímabilinu hefur lóðum undir mörg hundruð íbúðir verið úthlutað í bland við verslun og þjónustu, m.a. á Hraun vestur. Við Hafnfirðingar munum sjá kröftuga - en ekki síður skynsamlega - uppbyggingu íbúðarhúsnæðis víðsvegar um bæinn á næstu mánuðum. Þar tala staðreyndirnar sínu máli.
Meirihlutinn leggur áfram áherslu á að fyrirliggjandi tillaga opnar á fjölbreytta byggð íbúðar-, verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Tillagan fellur einnig vel að markmiðum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins þar sem meginstefnan er uppbygging og þétting byggðar við miðkjarna og önnur samgöngumiðuð þróunarsvæði og að hlutfall íbúðabyggðar á þeim svæðum vaxi úr 30% í 66%. Landsvæðið liggur að fyrirhugðuðum samgönguás Borgarlínu sem styrkir markmið svæðisskipulagsins og þéttingu byggðar. Þá er deiliskipulagstillagan í samræmi við þá framtíðarsýn og hugmyndir sem settar eru fram í rammaskipulagsdrögum fyrir Hraun vestur. Í greinargerð aðalskipulagsins dags. 20.04.2020 er gerð góð grein fyrir leik- og grunnskólum ásamt opnum grænum svæðum. Gert er ráð fyrir uppbyggingu á öllu svæðinu, Hraun vestur, geti tekið allt að 20 árum og gera má ráð fyrir ýmsum breytingum á því tímabili er varðar samgöngur og samfélag sem getur haft áhrif á skipulag framtíðar.
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlistans bóka:
Ekki er ljóst hvaða staðreyndir eiga að tala sínu máli sem kemur fram í bókun Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Í síðustu talningu Samtaka Iðnaðarins voru einungis 164 íbúðir í byggingu í Hafnarfirði sem er mun minna en í samanburðarsveitafélögum.
Í bókun meirihlutans er svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins notað sem réttlæting fyrir skipulagi sem er lakara að gæðum en flestir þéttingarreitir sem unnið er að á höfuðborgarsvæðinu.
Það er ekkert í svæðisskipulaginu sem kallar eftir jafn óhóflegu byggingarmagni, skuggamyndun og bílastæðasöfnun og hér er lagt til.
Byggingarmagn sem hefði fylgt forskrift rammaskipulagsins hefði í alla staði verið meira í takt við markmið svæðisskipulagsins heldur en þetta afmarkaða deiliskipulag sem brýtur gegn flestum ef ekki öllum markmiðum þess um vandaða gæðabyggð.
Þó að greinagerð aðalskipulagssins geri ráð fyrir leik- grunnskólum og grænum svæðum þá leggur þessi reitur ekkert til þeirra mála. Ef bærinn heldur svona áfram þá málar hann sig út í horn þannig að þegar síðasti reiturinn er deiliskipulagður verður ekkert svæði til afnota undir skóla og græn opin svæði.
Raunar má lesa skýrt úr athugasemdum Skipulagsstofnunnar að hún sé að spyrja af hverju bærinn ætli sér ekki að viðhafa meiri metnað í gæðum á kjarnaþéttingarreit svæðisskipulagsins. Fulltrúar minnihlutans taka undir þá spurningu.
Svar

Til máls tekur Ingi Tómasson.

Einnig tekur Friðþjófur Helgi Karlsson til máls.

Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs með 7 atkvæðum meirihluta og Miðflokksins en fulltrúar Samfylkingar, Bæjarlistans og Viðreisnar greiða atkvæði á móti.

Guðlaug Kristjánsdóttir keemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Bæjarlista, Samfylkingar og Viðreisnar taka undir bókanir fulltrúa flokkanna í Skipulags- og byggingarráði.
Guðlaug S Kristjánsdóttir,
Friðþjófur Helgi Karlsson,
Sigrún Sverrisdóttir,
Jón Ingi Hákonarson,