Deiliskipulag - Hreinsistöð við Geitanes
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 1 ári síðan.
Skipulags og byggingarnefnd nr. 87
9. febrúar, 2022
Annað
Fyrirspurn
Fyrir liggur tillaga Eflu Verkfræðistofu, þar sem gerð er tillaga að nýju deiliskipulagi vegna afmörkunar og áhrifasvæðis hreinsistöðavar við Geitanes norðan við núverandi flugvöll á Selfossi, í samræmi við 40. og 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarfélagið Árborg áformar að reisa tveggja þrepa hreinsistöð fyrir fráveitu við Geitanes norðan við flugvöllinn á Selfossi. Markmið framkvæmdarinnar er að koma á hreinsun skólps frá Selfossi sem uppfyllir skilyrði laga og reglugerða, en í dag er skólp að mestu losað óhreinsað í Ölfusá. Deiliskipulag þetta tekur til aðkomu að lóð hreinsistöðvarinnar, lóðarinnar sjálfrar og nærumhverfi eftir því sem þörf krefur m.a. vegna útrásar í Ölfusá. Í deiliskipulaginu er gerð grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og settir fram skilmálar um landnotkun, mannvirki, útrás, vernd náttúru og frágang. Framkvæmdir sem deiliskipulagið heimilar eru matsskyldar. Álit Skipulagsstofnunar á matskýrslunni lá fyrir 16.11.2020 þar sem segir að matskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Telur stofnunin að fyrirhuguð hreinsun fráveitu á Selfossi sé ótvírætt framfaraskref fyrir þéttbýlið. Samhliða deiliskipulagi þessu er gerð breyting á Aðalskipulagi Árborgar 2010-2030 sem fellst í breytingu á uppdrætti þar sem iðnaðarsvæðið færist lítið eitt til. Skipulagslýsing: Skipulags- og matslýsing fyrir breytingu á Aðalskipulagi Árborgar 2010-2030 og nýju deiliskipulagi fyrir hreinsistöð var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 29.07.2020 og í bæjarstjórn þann 19.08.2020. Skipulags- og matslýsingin var kynnt almenningi og umsagna aflað. Alls bárust 5 umsagnir. Innkomnar umsagnir voru frá Skipulagsstofnun, Flóahrepp, Sveitarfélaginu Ölfusi, Minjastofnun Íslands og Umhverfisstofnun. Helstu ábendingar sem í umsögnunum fólust og snérust að deiliskipulaginu voru ábendingar Minjastofnunar um fornleifar á svæðinu og athugasemdir frá Umhverfisstofnun vegna meðhöndlunar seyru, spurningar um hvaða svæði og fyrirtæki verða tengd hreinsistöðinni og ábending um að æskilegt væri að tímasett áætlun um fjölda hreinsiþrepa verði sett fram í skipulaginu. Engar ábendingar bárust frá almenningi. Við gerð þessa deiliskipulags var farið yfir alla þætti innsendra umsagna og þær hafðar til hliðsjónar. Gerð er grein fyrir öllum þeim þáttum sem eðlilegt er að taka fyrir á deiliskipulagsstigi en aðrir þættir fá nánari umfjöllun í mati á umhverfisáhrifum framkvæmda eða í breytingu á aðalskipulagi. Tilgangur og markmið: Skv. skipulagslögum nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reit innan sveitarfélags þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Í dag er skólp sem kemur frá Selfossi að mestu losað óhreinsað í Ölfusá. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að koma á hreinsun skólps frá byggðinni á Selfossi sem uppfyllir örugglega skilyrði laga og reglugerða samhliða því að vernda almenning og umhverfið gegn mengun af völdum fráveitu frá Selfossi. Markmið með deiliskipulagi þessu er að skilgreina uppbyggingu, frágang og áhrif á umhverfi af hreinsistöð við Geitanes.
Svar

Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir tillöguna í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og leggur til við bæjarstjórn Árborgar að samþykkja tillöguna til samræmis við ofangreint í skipulagslögum.