Ályktun bæjarráðs Árborgar um leikskólamál
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 vikum síðan.
Bæjarráð nr. 126
30. september, 2021
Annað
Svar

Bæjarráð Árborgar skorar á stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að beita sér fyrir fullri viðurkenningu ríkisvaldsins á leikskólastiginu sem menntastofnun með því að ríkisvaldið skilgreini sveitarfélögum tekjustofn til að standa straum af kostnaði við rekstur leikskóla frá lokum fæðingarorlofs. Jafnframt þarf að tryggja leiðir til að fjármagna þjónustu við fötluð börn á leikskólum og þau börn sem hafa annað móðurmál en íslensku, t.d. með jöfnunarframlögum.
Að sama skapi skorar bæjarráð á nýja ríkisstjórn Íslands að taka frumkvæði í þessu verkefni.
Nú er svo komið að ríkið hefur á Alþingi samþykkt að fæðingar- og foreldraorlof skuli vera tólf mánuðir. Augljóst er nýja fæðingarorlofið leysir ekki vanda nýbakaðra foreldra nema þau eigi kost á leikskólaplássi eða þjónustu dagmóður þegar þessum tólf mánuðum er lokið.
Óskir foreldra liggja ljósar fyrir og það er almenn krafa að í íslenskum nútíma fái þeir að njóta fæðingarorlofs og getið eftir það hugað að persónulegri þróun í starfi eða námi, án þess að þurfa að hafa verulegar áhyggjur af fjármálum og velferð barnsins. Það hlýtur að vera vilji ríkisins, líkt og sveitarfélaga, að uppfylla þessar þarfir foreldra í landinu.
Fram til þessa hafa sveitarfélög á eigin spýtur byggt upp og fjármagnað leikskólastigið án þess að skilgreindir hafi verið tekjustofnar í verkefnið. Þróun samfélagsins hefur á þeim tíma leitt til aukinna krafna um gæði uppeldismenntunar barna á leikskólum auk þess sem þörfin fyrir leikskólavist nær til sífellt yngri barna. Því til viðbótar er það almenn og skiljanleg krafa samfélagsins að brúað verði bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, lagði einmitt áherslu á þetta mál fyrir ári síðan í umsögn sinni um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof.
Sveitarfélög eru í ólíkum færum með að fjármagna rekstur leikskóla. Hjá einhverjum þeirra bitnar fjármögnun leikskólastigsins þar af leiðandi á annarri þjónustu eða viðhaldsverkefnum sveitarfélags. Það er alger undantekning ef sveitarfélög hafa svo rúma tekjustofna að þau getið með einföldum hætti boðið upp á þjónustu leikskóla frá 12 mánaða aldri. Þörfin er engu að síður brýn.