Framtíð starfsmenntanáms garðyrkjunnar á Íslandi að Reykjum
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarráð nr. 113
6. maí, 2021
Annað
Fyrirspurn
Framtíð starfsmenntanáms garðyrkjunnar á Íslandi að Reykjum.
Tillaga að bókun bæjarráðs til umræðu
Svar

Sveitarfélagið Árborg leggur hart að menntamálaráðherra og ríkisstjórn Íslands að starfrækja Garðyrkjuskóla á Reykjum sem sérstaka menntastofnun með sjálfstæðan fjárhag og stjórn. Með því myndu stjórnvöld sýna myndugleik og framsýni í málefnum garðyrkju á Íslandi. Sérstaða garðyrkjunnar og tækifæri henni tengd krefjast þess. Krafa samtímans um styrkingu iðn- og starfsnáms hlýtur að vera ráðamönnum leiðarljós á þessari ögurstundu Garðyrkjuskólans á Reykjum. Hvergi er betri jarðvegur en hjá fagfólki skólans á Reykjum til þess að byggja upp og efla starfsnám á sviði garðyrkju.
Suðurland á mikið undir garðyrkju sem er mikilvæg atvinnugrein á svæðinu og skapar fjölda starfa. Það er hinsvegar ekki bara Sunnlendingum, heldur þjóðinni allri, kappsmál að vel takist til að nýta tækifærin sem bjóðast til sjálfbærrar og vistvænnar matvælaframleiðslu á sviði garðyrkju. Garðyrkjuskólinn á Reykjum á aldarlanga sögu að baki og hefur alla burði til að vera áfram hornsteinn íslenskrar garðyrkju. Þar er eðlilegur og raunhæfur vettvangur starfsnáms sem leiðir saman bóklegt nám og áþreifanleg raundæmi á staðnum, eins og verið hefur síðustu áttatíu árin.
Ríkar ástæður liggja til þess að auka við aðstöðuna á Reykjum og hættuspil að draga úr henni. Kraftmikil starfsmenntastofnun á Reykjum verður mikilvægur aðili í þróun starfstengds náms á háskólastigi, í samstarfi við háskóla og atvinnuvegi á Íslandi, líkt og kallað hefur verið eftir. Svo vitnað sé í skýrslu verkefnishóps mennta- og menningarmálaráðuneytisins um fagháskólanám, frá árinu 2016: „Hér á landi hefur krafan um aukið samstarf atvinnulífs, stofnana á framhaldsskólastigi og háskóla um starfstengt nám á háskólastigi farið vaxandi á undanförnum árum.“
Það er mikilvægt að garðyrkjan eigi vettvang til ofangreindrar þróunar í sterkum Garðyrkjuskóla á Reykjum og yrði til framdráttar starfstengdu námi á framhalds- og háskólastigi. Sú tilraun að fella starfsnámið á Reykjum inn í almennan fjölbrautarskóla er áhættusöm og miklar líkur eru á vondri niðurstöðu með óásættanlegri afturför. Engar líkur eru á að FSU geti lagt þá ofuráherslu á garðyrkjunámið sem nauðsynlegt er að gera, nú þegar garðyrkja og tengdar greinar eiga að vera í forgrunni þjóðmálaumræðu vegna sjálfbærnimarkmiða og loftlagsmála.
Á grunni sterkrar menntastofnunar í formi Garðyrkjuskólans á Reykjum mætti auðveldlega sjá fyrir sér í náinni framtíð, samhliða styrkingu garðyrkjunámsins, þróun námsbrauta á háskólastigi samhliða starfsnáminu. Slíkar námsbrautir má byggja upp og reka undir verndarvæng sterkra háskóla, líkt og gert hefur verið með frábærum árangri í samstarfi Háskólaseturs Vestfjarða og Háskólans á Akureyri um meistaranám á Ísafirði.
Með kraftmikilli stofnun á Reykjum eru góðar líkur á að sinna megi nýsköpunarverkefnum á sviði garðyrkju betur en áður hefur verið gert. Til þess þarf þó nauðsynlega að halda úti fullnægjandi aðstöðu. Góður vettvangur í þessa veru gæti t.d. orðið til brautargengis Orkídeu, nýstofnaðs samstarfsverkefnis Landsvirkjunar, ríkisins og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga um nýsköpun.
Fjölgun háskóla á Íslandi hefur orðið undirstaða aukinnar fjölbreytni í háskólanámi á Íslandi síðustu 30 árin. Háskóli Íslands fékk verðuga keppinauta og heilbrigða samkeppni sem bætti árangur allra aðila. Fábreytni menntastofnana á Íslandi er ekki vegurinn til framþróunar og samdráttur í starfsnámi á sviði garðyrkju á Íslandi er alger tímaskekkja.
Bæjarráð Svf. Árborgar hvetur því mennta- og menningarmálaráðherra til að endurskoða hug sinn varðandi framtíð Garðyrkjuskólans á Reykjum og verja sérstöðu íslenskrar garðyrkju með því að aftur verði sérstök menntastofnun í garðyrkjunámi á Reykjum. Þá eru þingmenn kjördæmisins hvattir til að fylgja málinu til farsællar niðurstöðu.