Eignasala Kirkjuvegur 18
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 1 ári síðan.
Bæjarráð nr. 113
6. maí, 2021
Annað
Fyrirspurn
Sýslumaðurinn á Suðurlandi hefur hafnað því að bæjarstjóri, fyrir hönd bæjarstjórnar, hafi heimild til að ganga frá sölunni á Kirkjuvegi 18, þrátt fyrir ákvörðun bæjarráðs frá 15. apríl 2021 þar sem segir: „2103314 - Eignasala Kirkjuvegur 18 Tvo kauptilboð hafa borist í eignina Kirkjuvegur 18. Taka þarf afstöðu til þeirra. Bæjarráð samþykkir framlagt tilboð frá Vigfúsi Þór Hróbjartssyni og Guðnýju Guðjónsdóttur.“
Bæjarstjóri hefur stöðuumboð skv. 5. málsgrein 55. greinar sveitarstjórnarlaga, nr. 38/2011, en þar segir: „Framkvæmdastjóri undirritar skjöl varðandi kaup og sölu fasteigna sveitarfélagsins, lántökur og ábyrgðir, svo og önnur skjöl sem fela í sér skuldbindingar eða ráðstafanir sem samþykki sveitarstjórnar þarf til.“
Hið sama stöðuumboð bæjarstjóra er áréttað í 49. gr. bæjarmálasamþykktar Árborgar þar sem segir: „Bæjarstjóri undirritar skjöl varðandi kaup og sölu fasteigna sveitarfélagsins, lántökur og ábyrgðir, svo og önnur skjöl sem fela í sér skuldbindingar eða ráðstafanir sem samþykki bæjarstjórnar þarf til.“
Fulltrúi Sýslumanns vísar hinsvegar í lög frá árinu 1903, Lög um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903. Umrædd lög fjalla um firmu einstaklinga, félaga með ótakmarkaða ábyrgð og hlutafélaga. Ekki er hægt að sjá neina umfjöllun í lögunum um starfsemi eða prókúru sveitarfélaga.
Í ljósi ofangreindra krafna Sýslumanns, sem bæjarstjóri hefur mótmælt án árangurs, er óskað eftir að bæjarráð staðfesti að vegna sölu Sveitarfélagsins Árborgar á Kirkjuvegi 18 hafi bæjarstjóri heimild til að ganga frá sölunni fyrir hönd sveitarfélagsins og undirrita öll skjöl sem nauðsynleg eru til þess að salan geti farið fram, þar með talið skilyrt veðleyfi til kaupenda vegna veðsetningar eignarinnar fyrir veðskuldabréfum kaupenda sem tekin eru til þess að greiða kaupverðið.
Svar

Í ljósi krafna Sýslumannsins á Suðurlandi, sem bæjarstjóri hefur mótmælt án árangurs, samþykkir bæjarráð að vegna sölu Sveitarfélagsins Árborgar á Kirkjuvegi 18 hafi bæjarstjóri heimild til að ganga frá sölunni fyrir hönd sveitarfélagsins og undirrita öll skjöl sem nauðsynleg eru til þess að salan geti farið fram, þar með talið skilyrt veðleyfi til kaupenda vegna veðsetningar eignarinnar fyrir veðskuldabréfum kaupenda sem tekin eru til þess að greiða kaupverðið.