Kaup á lausum stofum vegna leikskóla
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 13
19. júní, 2019
Annað
Fyrirspurn
Erindi frá 37. fundi bæjarráðs Árborgar frá 31. maí sl., liður 3 Svf. Árborg hefur boðist til kaups færanleg skólastofa, til viðbótar við þær tvær sem nú þegar eru í pöntun. Áætlað kaupverð er um 25 m.kr. Kaupin væru til að bregðast við biðlistum í leikskólum sem vaxið hafa hratt í vor.
Bæjarráð samþykkir kaupin og felur bæjarstjóra að ganga frá viðauka. Samþykkt 2-0. Gunnar Egilsson greiddi atkvæði á móti.
Svar

Gunnar Egilsson, D-lista, Tómas Ellert Tómasson, M-lista, Ari Björn Thorarensen, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Sveinn Ægir Birgisson, D-lista, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri og Kjartan Björnsson, D-lista tóku til máls.

Að beiðni forseta tók Arna Ír Gunnarsdóttir, varaforseti við stjórn fundarins á meðan að Helgi S. Haraldsson, B-lista tók til máls.

Lagt er til við bæjarstjórn að kaup á færanlegum skólastofum til viðbótar við þær tvær sem nú þegar eru í pöntun. Áætlað kaupverð er um 25 m.kr. Í viðaukatillögu sem liggur fyrir síðar á fundinum er gert ráð fyrir þessari viðbót við fjárhagsáætlun.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, 3 bæjarfulltrúar, D-lista voru á móti. Kjartan Björnsson, D-lista var fjarverandi við atkvæðagreiðslu.

Gunnar Egilsson, D-lista, lagði fram eftirfarandi bókun:
Undirritaður gerir athugasemd við að formaður eigna- og veitunefnd skuli standa fyrir kaupum á skólastofu af aðila sem hann vinnur hjá. Ekki verður annað séð en að innkaupareglur sveitarfélagsins og hæfisreglur sveitarstjórnarlaga hafi verið brotnar.
Gunnar Egilsson.

Tómas Ellert Tómasson, M-lista, lagði fram eftirfarandi bókun:
Enn á ný vekur málflutningur og bókanir bæjarfulltrúa D-lista og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Árborg furðu.
Hið rétta er að kaup á téðri færanlegri kennslustofu rúmast innan laga um opinber innkaup og innkaupareglur Svf. Árborgar. Bæjarfulltrúinn ætti að fagna því að lausn sé nú komin á þeim vanda sem í stefndi, þar til ný leikskólabygging verður tekin í notkun í Engjalandi líkt og kemur fram í minnisblaði bæjarstjóra.
Fullyrðingar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins nú sem fyrr, standast enga skoðun. Að blanda sífellt fyrirtækjum sem starfa ýmist í eða utan sveitarfélagsins inn í slíka rökþrota umræðu, er dapurlegt að verða vitni að.
Ég hvet bæjarfulltrúann til að ræða málefni Svf. Árborgar framvegis með uppbyggilegri og skynsamari hætti en hann gerir nú og hefur gert að undanförnu.
Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi M-lista Miðflokksins og formaður eigna- og veitunefndar.